Fréttir

Gleðileg KAG-jól!

Karlakór Akureyrar-Geysir óskar öllum velunnurum sínum og tónleikagestum, gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, með von um áframhaldandi góðan söng og samskipti.     

Syngjandi hér, syngjandi þar....

Það er annríki í jólamánuðinum hjá félögum í Karlakór Akureyrar-Geysi og jólalögin sungin víða. Kórinn kemur fram á ýmsum stöðum fram að jólum. Fimmtudagskvöldið 10. desember, tekur KAG þátt í styrktartónleikum fyrir Hljóðfærasafnið á Akureyri, sem haldnir verða á Græna hattinum. Þar verður kórinn í portinu fyrir utan Græna hattinn og tekur á móti tónleikagestum með jólalögum, milli kl. 20 og 21. 

Vel heppnað hangikjötskvöld

Hin árlega 1. des. samkoma KAG var einstaklega vel heppnuð að þessu sinni. Skemmtileg söngstund með eldri borgurum, frábært hangikjötskvöld í Lóni, árangursríkt bögglauppboð og heldur betur óvænt uppákoma í lokin!    

Byrjaðir að æfa jólalögin

Í kvöld byrjuðum við KAG félagar að æfa jólalögin. Því fylgir alltaf sérstök stemmning, enda var venju fremur létt yfir mönnum á æfingunni. Svo erum við líka búnir að heimta Valmar söngstjóra úr klóm svínaflensunnar, en hann hefur ekki getað verið með okkur á undanförnum æfingum. 

Sungið fyrir Aflið og ánægjuna

Í kvöld tók Karlakór Akureyrar-Geysir þátt í tónleikum í Akureyrarkirkju, til styrktar Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Þar komu fram auk KAG; Friðrik Ómar, Óskar Pétursson, Inga Eydal, Hundur í óskilum og Heimir Ingimarsson. Kynnir var Bryndís Ásmundsdóttir leik- og söngkona.  

Góðir gestir að austan

KAG fær góða heimsókn á næstunni þegar félagar í Karlakórnum Drífanda á Fljótsdalshéraði koma norður til Akureyrar. Eftir góða skoðunarferð um Eyjafjörðinn sameinast kórarnir á tónleikum í Glerárkirkju, laugardaginn 7. nóvember, kl. 16.  

Vetrarstarfið byrjar!!!

Nú er sumri tekið að halla og það þýðir meðal annars að hefðbundið vetrarstarf kórsins fer í gang. Fyrsta æfingin verður mánudagskvöldið 21. september og hefst klukkan átta í Lóni. Nú verður sá háttur hafður á æfingum að fyrir kaffi á mánudögum verða raddæfingar en eftir kaffi á miðvikudögum verður síðan farið í eldra efni, sem þarf að halda við og við eigum að kunna. Ýmislegt verður gert í vetur, smátt og stórt...

Vetrarstarfið byrjar!!!

Nú er farið að síga á sumarið og það þýðir að Karlakór Akureyrar - Geysir hefur starfsemi að nýju.         Reyndar erum við búnir að vera duglegir í sumar við alls konar uppákomur en nú er sem sagt komið að venjulegum æfingum og hefðbundnu vetrarstarfi. Valmar verður áfram stjórnandi okkar og held ég að allir séu ánægðir með það.  

Sungið í sumrinu

Þrátt fyrir að hefðbundnu starfsári Karlakórs Akureyrar-Geysis ljúki að vori, eru ýmis verkefni yfir sumarið, sum hefðbundin, önnur tilfallandi. Það sem af er sumri hefur KAG sungið á skemmtun Sjómannadagsins á Akureyri og kórinn kom fram á Ráðhústorgi á hátíðarhöldum vegna 17. júní. Svo var eitt mánudagskvöld sungið fyrir alþjóðlegan hóp lækna, sem hittust á Akureyri. Það var svo farið að hausta þegar KAG tók þátt í Akureyrarvöku í lok ágúst og söng um borð í Húna II ásamt Kvennakór Akureyrar.     

Aðalfundur KAG

Aðalfundur Karlakórs Akureyrar-Geysis var haldinn mánudaginn 18. maí. Að venju og samkvæmt lögum KAG, var farið yfir hefðbundin mál: Formaðurinn flutti ítarlega skýrslu starfsársins, endurskoðaðir reikningar voru lagðir fram og samþykktir og kosið var í nýja stjórn og nefndir. Líflegar umræður sköpuðust síðan undir liðnum "önnur mál" og margir félagar tóku til máls.