Saga Karlakórs Akureyrar-Geysis

Kórastarf á Akureyri á sér ríka og glæsilega hefð. Söngfélagið Hekla var t.a.m. starfrækt frá því talsvert fyrir aldamótin 1900 og er það kannski helst til merkis um hversu öflugt það starf var að hópurinn hélt í hljómleikaferð til Noregs árið 1905 en slíkt var einsdæmi á sínum tíma.

Karlakórinn Geysir var stofnaður 1922 og Karlakór Akureyrar 1929. Báðir störfuðu kórarnir með miklum myndarbrag í áratugi og náði starfsemi þeirra oft á tíðum langt út fyrir hefðbundið söngstarf og setti mikinn svip á bæjarlífið á Akureyri. Þegar komið var fram á níunda áratuginn var af ýmsum ástæðum farið að ræða sameiningu kóranna. Í október 1990 varð til skilgetið afkvæmi þessara tveggja gömlu merkiskóra; Karlakór Akureyrar-Geysir (KAG), sem hefur starfað óslitið síðan.

Kórinn hefur gefið út tvo geisladiska. Fyrst var það "Vorkliður", sem kom út árið 1997 og syngur Sigrún Hjálmtýsdóttir þar með kórnum. Undirleik á píanó annaðist Richard Simm. “Á Ljóðsins Vængjum” leit svo dagsins ljós sumarið 2005. Á honum eru lög við ljóð Davíðs Stefánssonar.

Starf KAG er fjölbreytt og kórinn er mjög sýnilegur í menningarlífi Akureyrar. Auk hefðbundinnar dagskrár, sem inniheldur kaffihlaðborð, jólatónleika í einhverju formi, söng við jarðarfarir og ýmis önnur tækifæri, söngferðir víða um land og vortónleika, hefur KAG bryddað upp á ýmsum nýjungum undanfarin ár. Meðal annars stendur kórinn  fyrir kóramóti á Akureyri, sem nefnist “Hæ! Tröllum!” Er það orðinn fastur liður í dagskrá hvers vetrar. Gestakórum er boðið að taka þátt með KAG hverju sinni og mótið haldið síðla vetrar. Löng hefð er fyrir söngferðum á erlenda grund.

Sumarið 2003 fór KAG í hálfs mánaðar ferð til Ítalíu. Þar var sungið í Feneyjum, Verona, Flórens og Péturskirkjunni í Róm.  Árið 2007 fór kórinn farið í tíu daga söngferð til Eistlands og Finnlands. Tæplega hundrað manna hópur fór með beinu flugi til Tallinn og söng á ýmsum stöðum í Eistlandi svo og í Lahti, vinabæ Akureyrar, í Finnlandi.

Árið 2016 fór kórinn í söngferð til Norður Ítalíu, nánar tiltekið til Suður Týról, til Ortisei fæðingarbæjar Sigurðar Demetz Franzonar sem setti sterkan svip á tónlistarlíf Akureyrar á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, kenndi við Tónlistarskóla Akureyrar í 13 ár og stjórnaði m. a. Karlakórnum Geysi.

Viðamiklir afmælistónleikar í tilefni af 90 ára afmæli Karlakórs Akureyrar-Geysis, voru haldnir laugardaginn 17. nóvember 2012. Á afmælistónleikunum var þessi 90 ára saga rakin í tónum og tali, flutt lög frá upphafstíma kóranna tveggja og rakið það mikla tónlistarstarf sem þeim tengist. Lög og söngtextar hafa verið samin sérstaklega fyrir kórana og hluti þeirra hljómaði á tónleikunum. Þá tengjast sögu kóranna ýmsir sönghópar eins og Smára-kvartettinn á Akureyri og Geysis-kvartettinn og söngperlur hafa varðveist á upptökum sem fengu að hjlóma þetta afmæliskvöld.

Á meðal listamanna sem fram komu á tónleikunum var stórtenórinn og Akureyringurinn Kristján Jóhannsson, sem sjálfur söng með Karlakórnum Geysi sem ungur maður. Fleiri góðir gestir komu fram á tónleikunum, ásamt afmælisbarninu sjálfu; Karlakór Akureyrar-Geysi. Tónlistarstjóri var Hjörleifur Örn Jónsson, sem var stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis  2012-2018.

Árið 2015 voru glæsilegir vortónleikar haldnir, þar sem KAG, Bógómíl Font og hljómsveit, sameinuðust á tónleikum í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi. Sérstakur gestur var Óskar Pétursson. Tónleikarnir voru tileinkaðir sjómönnum og sjómennsku og því haldnir helgina sem bar upp á sjómannadaginn. Þessir tónleikar voru ólíkir öllu því sem KAG hafði áður gert og kórfélagar fetuðu þarna alveg nýjar og spennandi slóðir. Söngskráin var afar óvenjuleg fyrir karlakór; létt, þung, glettin, ljúf, rokkuð, en umfram allt ákaflega skemmtileg. KAG flutti karlakórslög í nýjum búningi og popp og rokk í karlakórsbúningi. Söng á íslensku, ensku, sænsku. Lög með Bógómíl Font, Bubba Morthens, Rod Stewart, Hauki Mortens, Ólafi Þórarinssyni. Svo komu við sögu Davíð Stefánsson, Páll Ísólfsson, Áskell Jónsson, Sigfús Halldórsson og fleiri. 

Kórinn hefur einnig árum saman sungið á öldrunastofnunum bæjarins fyrir hver jól, einnig á þorrablótum þar, ásamt því að syngja um hver jól á deildum Sjúkrahússins á Akureyri. Árum saman hefur kórinn tekið þátt í menningarviðburðum á vegum Akureyrarbæjar, s.s útihátíðum og á Akureyrarvöku.

Lengi vel ráku karlakórarnir eigin félagsaðstöðu og eftir sameininguna var sú aðstaða í Lóni við Hrísalund.     Þar hafði kórinn æfingaraðstöðu og margvísleg starfsemi fékk inni í húsinu.   Rekstur hússins reyndist lengi erfiður fjárhagslega og þannig fór að árið 2021 seldi kórinn eign sína og hefur leigt æfingaaðstöðu hjá RKÍ við Viðjulund síðustu missirin.

Fortíðin vill oft gleymast þegar við njótum þeirra ávaxta sem nútíðin hefur upp á að bjóða og sjáum oft ekki fegurðina í því sem við teljum sjálfsagt.  Þau verða seint ofmetin áhrifin sem kórarnir tveir og meðlimir þeirra höfðu á menningarsamfélagið á Akureyri síðustu öldina.  Tónlistarskólinn á Akureyri er t.a.m. afurð af samstarfi kóranna og fleiri aðila í Tónlistarfélagi Akureyrar og svo má einnig segja um ótal margt í menningarsamfélaginu okkar sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í dag.  Þá gleymist oft að að baki tilvist þessara mikilvægu stofnana er þróun sem hefur átt sér stað í áratugi, jafnvel árhundruð og verðum að hafa hugfast að það sem hefur tekið langan tíma vaxa og dafna getur verið jafn brothætt og hið nýja.