Hæ! Tröllum á meðan við tórum!

“Hæ! Tröllum” er mót fjögurra kóra, sem haldið er á Akureyri ár hvert síðla vetrar. Nafnið tengist náttúrlega þeirri ímynd sem margir hafa um þetta fyrirbæri, sem Karlakórar eru. Hugmyndin fæddist haustið 2005, en þá var haldið Landsmót Íslenskra Karlakóra í Hafnarfirði. Frekar slæmt veður var þá helgi og nokkrir kórar urðu veðurtepptir heima og misstu af þessari miklu uppákomu.

Hugmynd fæddist hjá okkur í KAG að bjóða Karlakór Siglufjarðar og Karlakórnum Drífanda austan af Héraði , sem báðir höfðu setið heima, að koma til Akureyrar og nota þessi lög, sem þeir, eins og allir aðrir kórar landsins höfðu æft og ætluðu að syngja saman. Menn höfðu eytt mánuðum í þessar æfingar, sem ekkert var svo hægt að nota. Allir voru til með það sama. Ákveðið var að bjóða Þröstunum í Hafnarfirði að vera með, en þeir höfðu skipulagt stóra mótið. Þetta mót okkar Akureyringa tókst það vel, að ákveðið var að halda það árlega.

Mótið er í raun einfalt í sniðum. Þrír gestakórar eru boðnir ár hvert og reynt að velja saman bæði stóra og litla kóra hverju sinni. Helst sem víðast að af landinu. Þannig fæst góður þverskurður af því sem karlakórar geta boðið upp á. Hver  kór flytur sitt prógram (4 – 5 lög) og koma gestirnir fram hver á eftir öðrum fram að hléi. Eftir það förum við sjálfir á pallana og flytjum okkar 4 – 5 lög. Þá bjóðum við öllum gestakórunum á pallana með okkur og saman syngjum við álíka mörg stórvirki úr sjóði verka fyrir karlakóra. Þau lög eru löngu ákveðin og hver kór hefur æft þau heima.

Í kring um mótið er heilmikil vinna. Sameiginleg æfing allra kóra er að morgni tónleikadags og á meðan hún fer fram, eru þeir makar sem hafa komið með, sendir í óvissuferð með rútu. Nóg er að skoða á Akureyri og um Eyjafjörð, þannig að þessi hluti á að geta verið skemmtilegur fyrir konurnar. Í hádeginu hittast svo allir í Lóni og fá sér súpu og brauð. Tónleikar eru seinni partinn klukkan fjögur. Eftir það er farið aftur upp í Lón og nú er það matarveisla sem bíður okkar. Allir kórar hjálpast að við að búa til skemmtidagskrá og í lokin er svo dansleikur.

Þau mót sem búin eru hafa gengið það vel, að kórar vilja gjarna fara að koma aftur á svona mót. Allir hafa náttúrlega gott af því að hitta aðra kóra og heyra hvað þeir eru að gera. Svo er maður jú manns gaman!