Lög Karlakórs Akureyrar-Geysis

1. gr.  
Félagið heitir „Karlakór Akureyrar – Geysir”. Heimili þess er á Akureyri. 

2. gr.  
Tilgangur félagsins er að efla söngþekkingu, söngmenntun og almennt tónlistarlíf á Akureyri. 

3. gr.  
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að æfa félaga sína í kórsöng undir stjórn söngstjóra, halda samsöngva svo oft sem ástæður leyfa og með öðrum þeim leiðum sem heppilegar þykja. 

4. gr.  
Félagi getur hver sá karlmaður orðið sem söngstjóri telur hæfan til söngs og stjórn félagsins samþykkir til inntöku í félagið, enda gangist hann undir að hlíta lögum félagsins í hvívetna með nafnritun sinni í félagaskrá. Atkvæðisrétt á fundum félagsins fær félagi ekki fyrr en hann hefur starfað með félaginu í þrjá mánuði. Hætti einhver félagi að starfa í félaginu um lengri eða skemmri tíma, hefur stjórnin úrskurðarvald um það hvort hann skuli teljast félagi áfram. Enginn félagi á nokkru sinni tilkall til nokkurs hluta af eignum félagsins.  

5. gr.  
Félagið heldur aðalfund fyrir liðið starfsár fyrir lok maímánaðar og skal boða hann með minnst viku fyrirvara á sannanlegan hátt. Reikningsár félagsins er almanaksárið. Aðalfundur er því aðeins lögmætur að helmingur skráðra félaga sitji hann. Náist ekki lögleg fundarsókn á löglega boðaðan aðalfund, skal boða til nýs aðalfundar með viku fyrirvara og er sá fundur löglegur án tillits til fundarsóknar. 
 
Lögákveðin dagskrá aðalfundar er: 

  1. Lögð fram skýrsla stjórnar um ársstarfsemina og tekin ákvörðun um framtíðarstarfsemi félagsins.  
  2. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins til afgreiðslu.  
  3. Kosning formanns, stjórnar og tveggja endurskoðendaog annarra starfsmanna félagsins fyrir komandi starfsár.  
  4. Kosning eins manns úr hverri rödd, raddformanns, sem hafi það verkefni að boða raddmenn til æfinga og koma á framfæri til þeirra skilaboðum og tilkynningum og vinna önnur þau störf sem stjórn felur raddformönnum að vinna.  
  5. Önnur mál. 


Aðra félagsfundi ákveður stjórnin eftir því sem hún telur þurfa. Einnig skal halda félagsfund, ef a.m.k. fimm félagar óska þess. Á aðalfundi og félagsfundum ræður afl atkvæða úrslitum nema annað sé ákveðið í lögum þess. 

6. gr.  
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda. Skal formaður kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn, en stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir í einu lagi til tveggja ára í senn, þó þannig að árlega eru kosnir tveir menn. Kjósa skal tvo varamenn í stjórn til eins árs í senn. Kosningar skulu vera skriflegar. Hverjum félaga er skylt að taka kosningu nema hann hafi gildar ástæður til að hafna kosningu að dómi stjórnar. Engum er þó skylt að taka endurkosningu jafnlangan tíma og hann hefur setið í stjórn. 

7. gr.  
Stjórn félagsins ræður söngstjóra, undirleikara og aðra starfsmenn félagsins eftir því sem þörf er talin á hverju sinni. Stjórnin hefur á hendi stjórnun starfsemi og framkvæmda fyrir félagið, annast fjárreiður þess og eignir, sér um reikningshald og færir gerðarbækur og félagaskrá.
Stjórninni er heimilt að skipa félaga, einn eða fleiri saman, til að hafa umsjón með eða annast einstök verkefni á vegum stjórnarinnar. Er hverjum félaga skylt að taka að sér slík störf í eitt ár í senn nema gildar mótbárur komi fram að dómi stjórnar. Um rétt félaga til að hafna endurskipan í sama starf fer á sama hátt og um kosningar. 

8. gr.  
Eftirtaldar fastanefndir skulu starfa: 
Húsnefnd, sem skipuð skal þremur mönnum, kosnum á aðalfundi, og skal stjórn tilnefna einn þeirra úr sínum hópi. Verkefni húsnefndar er að hafa eftirlit með umgengni í húsinu, vera húsverði til aðstoðar við útleigu og hafa umsjón með smærri viðhaldsverkefnum.  
Nótnanefnd, sem kosin skal á aðalfundi, skipuð þremur mönnum, og á hún að hafa eftirlit með nótnasafni kórsins og tryggja jafnframt að kórfélagar fái nótnaeintak af þeim sönglögum sem tekin eru til flutnings. 

9. gr.  
Allir félagar eru skyldir að sækja æfingar sem stjórn eða söngstjóri ákveða, að forfallalausu. Stjórnin ákveður hvort forföll teljast vera fyrir hendi. Sæki félagi ekki 3 æfingar í röð, án þess að gera grein fyrir fjarveru sinni, getur stjórn strikað hann út af félagaskrá. 

10. gr. 
Gjaldkeri félagsins fer með fjármuni félagsins í umboði stjórnar. Óheimilt er að skuldbinda félagið fyrir öðru en varðar rekstur nema með samþykki félagsfundar. Óheimilt er að veðsetja eignir félagsins til tryggingar öðrum lánum en þeim sem óhjákvæmilegt er að taka til reksturs félagsins eða til eignaaukningar. Til veðsetningar á eignum félagsins þarf samþykki félagsfundar, þar sem mættur er minnst helmingur félags. Sama gildir sé um að ræða sölu á fasteignum félagsins. 

11. gr.  
Þá menn sem stjórnin telur hafa unnið sérlega góð störf í þágu félagsins, getur hún heiðrað á eftirfarandi hátt: 

  • 1.  stig:  Með merki félagsins. 
  • 2.  stig:  Með merki félagsins í góðmálmi. 
  • 3.  stig:  Með því að gera þá heiðursfélaga, enda liggi þá fyrir samþykki félagsfundar. Skal það gert með skjali, er greini frá því að viðkomandi öðlist þar með öll réttindi félagsmanna, en beri hins vegar engar skyldur gagnvart félaginu. 3. stig má aldrei veita starfandi félögum. 


12. gr.  
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundum félagsins og þarf til þess 2/3 hluta atkvæða. Tillögur um lagabreytingar skulu kynntar félögum með fundarboði, enda sé þeirra getið í dagskrá fundarins. 

13. gr.  
Á sama hátt og í 12. gr. Skal fara með tillögu um að leggja félagið niður og ráðstafa eignum þess, þá þurfa 2/3 hlutar að vera mættir á fund. Verði félagar færri en átta skuli auk þeirra síðast kjörin stjórn, varastjórn og heiðursfélagar, skv. 10. gr., taka ákvörðun skv. Þessari grein.

14. gr.  
Verði félagið lagt niður skal eignum þess varið til eflingar tónlistarlífs á Akureyri. 


Lög þessi voru þannig samþykkt á stofnfundi félagsins 11. október 1990 og með síðari  breytingum á aðalfundi 8. janúar 1997, 27. janúar 2003 og 24. janúar 2008.