Söngferð til Eistlands og Finnlands 2007

Söngferð ein mikil var farin 20. til 30. júní sumarið 2007. Ferðaskrifstofan Trans-Atlantic setti upp fyrir okkur þessa tíu daga ferð um Eistland og Finnland. Hópurinn taldi nánast hundrað manns og var bara glatt á hjalla kvöldið, sem lagt var í hann. Risið var töluvert lægra morguninn eftir, þegar við klóruðum okkur inn á hótel Portus í fylgd Helenu fararstjóra og fengum morgunverð. Nokkrir fóru að striplast í sauna uppi á þaki og hélt það einhverjum vakandi. Nokkru síðar fórum við með Hansabuss á Tallink hótelið og flestir lögðu sig nokkra tíma. Ekki dugði samt að sofa of lengi því klukkan fimm var æfing hjá okkur í House of the Great Guild ( House of Blackheads). Líklega höfum við aldrei sungið í eldra húsi, en það var byggt árið 1343. Löbbuðum síðan yfir í Þjóðminjasafnið og vorum gestakór á tónleikum hjá félögum okkar í Noorus og fleiri kórum. Ég held að við höfum oft sungið betur en þar og þá, enda vansvefta og svona dálítið úti á túni. Eftir konsertinn var matur í Bjórhúsinu, stórri og glæsilegri krá í miðbæ Tallinn. Kjúklingur vel úti látinn í matinn. Valmar spilaði dinnerinn með Folkmill, gömlu hljómsveitinni sinni og allir voru glaðir og hressir. Við fengum stóran karamellupoka fyrir sönginn okkar. Minnti mann svona dálítið á öskudaginn heima.

Næsta dag fórum við til Pärnu, nánast tenórlausir, en kvikmyndatöku-strákur var kominn í hópinn. Hafði verið samið um, að herlegheitin yrðu fest á filmu og allir gætu eignast sinn DVD úr ferðinni. Pärnu er kölluð og er sumarhöfuðborg Eistlands. Finnst mér að Akureyri ætti að vera slíkt hið sama hér á landi. Skoðuðum við bæinn, vatnagarð, hressingarhæli, sungum í tónlistarhúsi og fleira. Fengum kjúkling að borða. Síðan var ekið aftur, sem leið lá til Tallinn. Þar hittum við tenórana aftur og urðu miklir fagnaðarfundir. Allir buðu Höskuldi og frú góðan daginn það föstudagskvöld. Þau sváfu daginn af sér. Siggi Páls og fleiri strákar reyndu sig í dansi og ýmsu öðru um kvöldið.

Morguninn eftir fór Ari Jóhann út í apótek og keypti hækju og síðan aðra. Sigrún var ekki mikið að sýna sig næstu daga, en hún hafði eitthvað verið að rifja upp gamlar frjálsíþrótta-æfingar eins og splitt. Nýtti Ari þetta nýfengna félagslega frelsi sitt út í æsar. Þennan dag skoðuðum við gamla bæinn, Viru Center, kirkjur, ráðhús, turna, markaði, matsölustaði, verslanir, kaffihús og margt fleira. Um kvöldið voru mikil hátíðahöld í OpenAirMuseum á svæði sem kallast  Rocca al Mare. Jónsmessan er ekki síður stór í Eistlandi en í Skandinavíu. Gömul hús, myllur og varðeldar. Yndislegt kvöld í góðu veðri og allt saman að sjálfsögðu fest á filmu. Þetta yrði allt skoðað betur er heim kæmi.

Þá er kominn sunnudagur og æfing og tónleikar í kirkju heilags anda, rétt við ráðhústorgið. Kirkjan var full af fólki og reyndar gestir sífellt að bætast við. Stór hópur Ítala fór að skæla, þegar “O, Sole mio”, vitringanna þriggja, þeirra Ara, Einars og Jónasar Þórs fyllti húsið. Allt myndað í bak og fyrir.

Eftir tónleika beið okkar mikil matarveisla í brúðuleikhúsi bæjarins. Þar var náttúrlega kjúklingur og fleira kjöt, meðal annars heilsteikt svín. Samt sem áður kláraðist allt og Einar Kolbeins fékk nánast ekki neitt. Var hann fúll lengi kvölds. Skemmtiatriði voru þarna líka, t.d. rímnakveðskapur eistneskur; dansflokkur dró mannskapinn í alls kyns dans og önnur atriði. Að lokum var svo smá ball, þar sem undirritaður fékk að spila með. Ekki urðu menn mjög ölvaðir þetta kvöld, því vínið kláraðist eins og maturinn. Kvikmyndatökumaðurinn skaut í allar áttir af snilld. Líklega um kvöldið eftir þessa veislu sást til nakta apans með hendur í skauti á göngum Tallink hótelsins en það náðist ekki á mynd. Löng saga.

Daginn eftir var farið til Haapsalu og skoðaður gamall kastali ásamt fleiru. Borðað var á Blu Holm, kjúklingur að sjálfsögðu, og þar gerðist Árni Jökull þjónn. Þar komst ég að því að Aladár borðar ekki kjúkling. Þessi rólegi og ljúfi maður hafði ekkert verið að flíka því og hafði bara fundið sér bara brauð og annað léttmeti til að seðja sárasta hungrið. Ekki látið vita af þessari fötlun – að borða ekki kjúkling. Jæja, áfram var haldið og ferja tekin frá Virtsu út í kúlueyjuna Muhamaa og þaðan ekið eftir langri brú til fyrirheitna landsins Saaremaa. Þar skyldi gist. Kjúlli í matinn. Nokkrir félagar fóru á lykla-veiðar um kvöldið. Ekkert reyndist vera hótelið á staðnum heldur eins konar flóttamannaskýli og minnti flugnavesenið mig á engisprettufaraldur þann, sem talað er um í biblíunni. Eftir nóttina voru menn að telja á sér jafnvel yfir sextíu flugnabit. Um þetta leyti þurfti líka að fara að skipta út rútum. Önnur rútan hélt hvorki vatni né vindum og sátu sumir þar með regnhlífar, en hin var svona með ýmsa minni kvilla.

Á þriðjudag skoðuðum við Kuressare kastalann, litum á gíga eftir loftsteina, sáum vindmillur af stærri gerðinni og drifum okkur alla leið til Tallinn aftur. Þar renndum við niður að höfn og fórum um borð í stóra ferju. Ferðin lá til Finnlands. Æðislegt hlaðborð beið okkar í skipinu, ball og trúbador ásamt ýmsu öðru. Sáum Helsinki birtast og fórum að sofa.

Upp er runninn miðvikudagur og við komin til Finnlands. Skoðunarferð í Helsinki bauð meðal annars upp á Kallio-kirkjuna, sem er stórkostlegt mannvirki. Síðan var ekið til Lahti og sá ágæti bær skoðaður. Farið á Hótel Cumulus og borðað. Á móti hótelinu var verslunarmiðstöð og einhverra hluta vegna þurftu ótrúlega margir í hópnum að kaupa sér nýjar ferðatöskur þar. Seinna um daginn var sungið í Krosskirkju, sem Alvar Aalto teiknaði. Ekki voru margir Finnar að hafa fyrir því að mæta hjá okkur á tónleikana. Restaurant Lokki sá um kvöldmat fyrir okkur og var það sjávarréttahlaðborð með stórum stöfum. Eftir mat var farið á hótelið aftur og átti að taka smá fjöldasöng, en það mátti ekki. Bara fara að sofa og líklega var það skást í stöðunni.

Fimmtudagur byrjaði með heimsókn í ráðhúsið í Lahti og síðan lá leiðin í Sibelius Hall. Ótrúlegt hús með einstakan hljómburð. Eftir skoðunarferð um húsið fengum við alveg magnaða einkatónleika. Næst lá leiðin út á Vesijärvi, sem þýðir Vatns-vatn. Þar var hlaðborð um borð og harmonikkuleikur. Að þeirri ferð lokinni fóru rúturnar með okkur aftur til Helsinki og við gátum skoðað okkur um þar fram til klukkan sex, en þá var mæting í ferjuna. Um borð var náttúrlega frábær matur, líka fyrir Aladár, og svo máttum við leggja undir okkur barinn til fjöldasöngs. Margir mættu með fínu bækurnar sínar, sem gerðar voru fyrir þessa ferð og mikið var sungið. Snorri með gítarinn og Valmar með fiðluna sína. Gaman gaman. Sigldum sofandi aftur til Tallinn. Ansi gott að ferðast svona. Má segja að maður hafi slegið “Tvær flugur í sama höfuðið” eða þannig. 

Næsta dag er ekið fram hjá Kadriorg-Kastalanum og síðan haldið á Song Festival Grounds. Minnir dálítið á Hollywood Bowl, en líklega töluvert stærra. Þar gátum við fylgst með æfingu fyrir sönghátíðina miklu sem í vændum var og voru að mig minnir yfir 20 þúsund manns að syngja þarna saman. Nokkrum dögum áður höfðum við mátað kórinn okkar inn í gímaldið og tíst eitthvað. Ótrúleg sjón að sjá allan þennan söngvarafjölda samankominn. Eftir það var ekið til heilsubælisins Laulasmaa. Þar var hægt að borða A la Carte og Gras a la Carte. Ungur strákur lék þar á flygil um kvöldið. Aladár vokaði í kring um hann eins og ránfugl, og fékk að lokum að “taka í”. Þar með var teningunum kastað. Mikið einvígi hófst og léku þeir til skiptis sífellt flóknari og flottari verk. Spiluðu líka saman fjórhent. Þegar Valmar kom inn í hópinn aftur eftir smá sígarettupásu og sá hvað var í gangi, vildi hann fá að vera með. Ýtti öllum nótum út af borðinu, rokkaði feitt og söng hástöfum. Hann var sigurvegari kvöldsins.

Daginn eftir lá leiðin á ný til Tallinn. Nú skyldi litið á Söng- og Danshátíð Æskunnar á Kalevi Stadium. Umferðaröngþveitið náði langar leiðir út frá íþróttavellinum. Valmar reddaði okkur með forgangshraði framhjá öllum vegatálmum; sagði okkur vera orðna of seina á staðinn og þar ættum við að syngja. Dæmigerð austan-tjalds-redding!!! Ótrúleg sjón að sjá það, sem þar fór fram. Jæja, dagurinn var svo kláraður í ViruCenter og gamla bænum. Loks var farið út á flugvöll og allt tékkað inn nema Stroh-flöskurnar, sem ýmsir áttu en fengu ekki að fara með. Mamma hans Valmars geymir þær handa honum, þangað til hann kemur næst.

Við lentum svo heilu og höldnu heima á Akureyri að kvöldi 30. júní. Yndislegt að vera svona í “Beinu flugi”, en Reykvíkingar skilja það líklega ekki!!!

Snorri Guð.