Skýrsla formanns 2010

Þann 18. maí í fyrra var síðast haldinn aðalfundur Karlakórs Akureyrar-Geysis. Þar var farið yfir venjuleg aðalfundarstörf og ný stjórn kosin. Út fóru þeir Örn Arnarson og Kolbeinn Sigurbjörnsson en inn fengum við í stað þeirra Eggert Sigurjónsson og Ágúst (tiginn) Ólafsson. Stjórnin þetta síðasta ár hefur sem sagt verið Snorri Guð formaður, Hólmkell Hreinsson ritari, Eggert Sigurjónsson gjaldkeri, Gunnar Páll féhirðir og Hallgrímur Ingólfsson varaformaður. Varamenn, sem samt sem áður mæta á alla fundi eru síðan Aðalbjörn Pálsson og Ágúst Ólafsson. Þessi stjórn hefur haft þann háttinn á, að halda fundi fyrsta mánudag hvers mánaðar og síðan bætt við eftir þörfum öðrum fundum.

Þremur dögum eftir fyrrnefndan aðalfund, eða þann 21. maí var sungið í messu í Glerárkirkju á Uppstigningardegi. 15. maí söng svo kórinn á Landsfundi Landsbjargar, sem var haldinn í Íþróttahöllinni. Þann 4. júní tók kórinn óformlega á móti Hörpukórnum frá Selfossi og fór undirritaður í ferðalag um innsveitir Eyjafjarðar með félagana. Eftir það voru tónleikar í Lóni með þessum kór og kór aldraðra á Akureyri, Í fínu formi. Þremur dögum síðar tók Karlakórinn þátt í hátíðahöldum á Sjómannadaginn á Torfunefsbryggju. Þá söng kórinn á Ráðhústorgi þann 17. júní klukkan þrjú við góðar undirtektir. 22. júní mættum við félagarnir niður á Greifa og sungum fyrir lækna af ýmsum þjóðernum samankomna til að taka þátt í ráðstefnunni “Conference Plus”. Sungum við Lily the Pink, Funiculi, All my loving, Danny Boy og fleiri lög. Fór kórinn eftir það í sumarfrí frá okkar skemmtilega og gefandi áhugamáli.

Ekki varð sumarfríið langt, því KAG söng við jarðarför Steinars Þórólfssonar þann 14. ágúst í Akureyrarkirkju og hjálpaði síðan félaga okkar Þór Sigurðarsyni að halda upp á sextugsafmæli sitt með tónleikum í Glerárkirkju 22. ágúst.

Akureyrarvakan var á sínum stað og nú söng Karlakór Akureyrar-Geysir ásamt Kvennakór Akureyrar á laugardagskvöldinu um borð í Húna, sem var samt landfastur að þessu sinni. Þótt hóparnir hafi verið álíka fjölmennir veit ég að þar sem við höfðum vit á að skreiðast upp á hvalbakinn heyrðist mun meira í okkur körlunum. Já, stundum hugsa karlmenn.

Messa var sungin í Glerárkirkju að morgni 11. október. Kannski ekki í frásögur færandi þannig lagað, en nokkrir nýliðar ákváðu að slást í hópinn, eiginlega sem betur fór. Hinir eldri mættu ekkert sérlega vel, heldur ekki formaðurinn né stjórnandinn. Ég fastur í vinnu austur á landi og Valmar veðurtepptur á svipuðum slóðum. Hjörtur organist í Glerárkirkju bjargaði málinu og sá um að stjórna kórnum gegnum guðsþjónustuna.

Fimmtudagurinn fimmti nóvember var næstur. Þá tók KAG þátt í styrktartónleikum á vegum Aflsins í Akureyrarkirkju. Mjög gott og þarft verkefni þar í gangi.

Karlakórinn Drífandi kom svo í heimsókn þann 7. nóvember. Sungu kórarnir sundur og saman í Glerárkirkju að vanda og efldu vináttuböndin. Veisla í Lóni fylgdi í kjölfarið og allt gekk eins og best varð á kosið. Þar var endanlega gengið frá hugmyndum um þriggja kóra mót á austurlandi dagsett í næstkomandi apríl.

Eftir þetta lá vegurinn beinn og breiður fram til fyrsta des., en þá héldum við okkar hefðbundna Aðventukvöld með hangikjöti og tilheyrandi. Byrjað er á að fara upp á Hlíð klukkan sex og syngja konsert fyrir þá borgara sem þar búa, en síðan er haldið í Lón. Þar býður kórinn félögum sínum og mökum sem sagt upp á þennan hefðbundna mat. Prestar hafa alltaf verið fengnir til að koma og vera með hugvekju fyrir okkur á þessu rólega og þægilega kvöldi, en nú urðu prestarnir tveir og gekk meira á en venjulega. Séra Magnús Gamalíel prestur á Dalvík var sá, sem fór með litlu hugvekjuna, mjög litla reyndar og dreif sig svo út. Skömmu síðar mætti hins vegar jólasveinn og blaðraði í allar áttir og skaut á menn úr ýmsum áttum. Þekktu ekki allir Gamalíelinn strax, en hann er eiginlega hálfur maður og hálfur jólasveinn. Í beinu framhaldi af þessari uppákomu svipti síðan séra Arnaldur Bárðarson sér inn í salinn í hempu og með stólu. Vissu menn ekki alveg hvað stóð til. Sagðist hann vera kominn til að innheimta af okkur ákveðna mætingaskyldu í Glerárkirkju til að jafna út lán á kirkjunni til tónleikahalds. Hugðist hann demba á okkur prédikunum síðustu fimm sunnudaga og nokkrir trúðu því næstum því. Arnaldur var hins vegar mættur í öðrum erindum og kallaði upp til sín Sigurð Kristjánsson og Hólmfríði hjásvæfu hans, en þau höfðu lifað saman í synd um árabil. Nú skyldi því líferni hætt og parið pússað saman í eina heild. Þetta hafði ekki gerst áður á uppákomu hjá kórnum, svo vitað sé, og splæsti KAG smóking á kallinn í tilefni dagsins. Svo fékk hann náttúrlega þessa fínu matarveislu upp í hendurnar. Mjög sérstök og fjölmenn 1. des hátíð þetta árið. Þann 19. desember var nóg að gera hjá kórnum og sungum við fyrst í miðbænum dágóða stund en færðum okkur síðan út á Glerártorg og endurtókum leikinn þar. Daginn eftir, sunnudag, sungum við síðan jólatónleika í Glerárkirkju ásamt kór kirkjunnar og Magna Ásgeirssyni.

Karlakórinn hefur til margra ára sungið seinni part aðfangadags á sjúkrahúsinu. Undanfarin ár hefur sú breyting átt sér stað að fólk er ekki slasað eða mikið veikt yfir helgar og hátíðar og húsið því nánast mannlaust. Tilgangurinn, þ.e.a.s. að létta þeim, sem þar eru ástandið og hjálpa til við jólahelgina, var að engu orðinn og nauðsynlegt að finna aðra leið. Mánudagurinn 21. des varð fyrir valinu í samráði við sjúkrahúsprest og fór úrvalslið kórfélaga upp úr kvöldmat milli deilda og “söng inn jólin”. Verður þessi háttur líkast til hafður á framvegis. Það síðasta, sem gert er hjá okkur á ári hverju er síðan að mæta í Lón milli eitt og þrjú á gamlársdag, fá okkur öl og gaula svolítið saman kringum flygilinn. Ekki alltaf fallegur söngur, en á samt sína skemmtilegu spretti.

Sjaldan hefur árið byrjað jafn snemma hjá okkur og núna. 2. janúar mætti kórinn í áttræðisafmæli hjá gömlu kempunni Ingva Rafni. Héldu afkomendurnir mikið teiti honum til heiðurs í húsi Oddfellow-reglunnar og þar sungum við Sigling inn Eyjafjörð fyrir strákinn. Áður en við sungum fékk hann bæði smá ræðu og koníaksflösku að gjöf, en þar sem við töldum ekki hollt fyrir Ingva að fá svo mikið áfengi, dreifðum við þvagsýnisglösum á allan kórinn og fengum tár úr flöskunni svona rétt til að skála fyrir félaga okkar. Restina af flöskunni fékk hann svo á eftir og er vonandi bara búinn með hana. Daginn eftir sungum við svo í morgunmessu í Glerárkirkju með séra Gunnlaugi. Ekki má heldur gleyma í þessari upptalningu, að á einni æfingunni fór Heimir Bjarni með kórinn í gegnum það, sem hann er búinn að vera að læra og nefnist “Complete Vocal Tecnique”. Fullt af nýjum orðum og æfingum, sem flestir eru búnir að gleyma aftur. Þyrftum að fá svona skammt reglulega held ég.

21. janúar mættum við KAG-félagarnir í Ketilhúsið og tókum þátt í dagskrá helgaðri Davíð Stefánssyni, en 21. jan er fæðingardagur skáldsins. Með Valmari og Aladár var framreitt hlaðborð af lögum við texta Davíðs. Viku síðar sungum við síðan yfir Hjördísi Áskelsdóttur í Glerárkirkju.

Árshátíð kórsins átti að vera haldin 19. febrúar en var slegin af sökum ónógrar þátttöku og ákveðið að geyma hana til vorsins. Þann 6. mars sáum við um að selja mottumerki krabbameinsfélagsins í Bónus á brekkunni. Karlar og krabbamein var málið, sem við vorum að veita lið og varð svo allur mánuðurinn undirlagður af þessu mottu-mars átaki. Ég held að enn sé mars hjá Tomma barítón.

“Hæ! Tröllum” mótið okkar var haldið að vanda í Glerárkirkju laugardaginn 20. mars. Að þessu sinni tóku þátt í mótinu auk okkar, Bólstaðarhlíðarkórinn, Eyfirðingar og Hreimur. Áður en að mótinu kom, fór KAG í Ýdali og tók eina æfingu með Hreim, bæði í sameiginlegu lögunum og glasalyftingum. Þá fengum við líka Eyfirðingana í heimsókn til okkar rétt fyrir mót, en þeir fengu bara kaffi og brauð, enda stutt í tónleikana. Að venju var farið með maka í óvissuferð á laugardagsmorgninum og boðið í súpu og brauð í hádeginu. Gekk mótið sjálft afar vel og fylltum við kirkjuna. Jafnt gestir sem þátttakendur voru afar sáttir eftir tónleikana og mótinu lauk svo að sjálfsögðu með veislu í Lóni. Jón Vídalín töfraði fram hlaðborð eina ferðina og ekki af verri sortinni. Einhverjum peningum skilaði þetta allt saman á endanum til okkar, en “Hæ! Tröllum” er liður í fjáröflun kórsins. Eftir mótið var ákveðið að reyna að halda það á hverju ári í framtíðinni. Helgina eftir tók svo kórinn þátt í kvöldguðsþjónustu, eða léttmessu eins og við köllum það stundum, ásamt Krossbandinu. Prestur var Helgi Hróbjartsson, sem verið hefur í Afríku í yfir 30 ár. Ekki alveg hefðbundin uppákoma. Útgöngulagið var: “Will the Circle Be Unbroken” og var slegið töluvert í, þannig að fólk fór að klappa með í takt. Eftir þessa lotu var rólegt um tíma, vorprógram æft og fór það fljótt að taka á sig mynd.

Föstudaginn 23. apríl mættum við félagarnir í Lón um hádegið og lögðum af stað í söngferð austur á land. Byrjað skyldi á Vopnafirði og þangað ætluðu einnig að mæta Drífandi af Héraði og Jökull frá Höfn. Á leiðinni stóð undirritaður í miklu stappi við húsvörðinn um bæði kaffi og uppröðun í salinn. Vildi hann hafa borð í sal, opinn bar og selja öl allan tímann með tilheyrandi skarkala. Eftir nokkur símtöl á hreppsskrifstofurnar lagaðist þetta allt og ég beðinn að gleyma öllu húsvarðartengdu veseni. Á leiðinni austur var stoppað í kaupfélaginu í Mývastnssveit og “tappað af og á”. Er við síðan renndum í bæinn á Vopnafirði byrjuðum við á að skoða safn Jónasar og Jóns Múla í safnahúsinu Kaupvangi í fylgd Magnúsar Más, vinar okkar. Þegar því var lokið voru hinir kórarnir mættir og haldið í félagsheimilið Miklagarð til samæfingar og upphitunar. Vorum við vel nestaðir og seldum hinum hluta af nestinu okkar. Alltaf að græða. Skemmst er frá því að segja að húsfyllir varð og allt gekk eins og í sögu. Hver kór með sinn sérstaka karakter og einkenni sinnar heimabyggðar. Einn bjór á barnum eftir tónleikana var skammturinn það kvöldið, þótt sumir færu reyndar svolítið lengra. Sá Eggert um að koma okkur á Hótel Hérað, en þar áttum við pantaða tveggja nátta gistingu. Frábært hótel og morgunmatur til fyrirmyndar. Jafnvel hægt að græja vöfflur.

Að morgni laugardagsins fóru KAG og Jökull í heimsókn í Álverið í Reyðarfirði. Nokkrir náðu að kíkka í mjólkurbúðina áður en lagt var af stað þangað. Jæja, sungum við þar í matsalnum og var síðan boðið í mat. Lostætið hans Valmundar sveik ekki frekar en fyrri daginn. Eftir þetta var farinn skoðunarhringur um svæðið í fylgd Ernu Indriðadóttur, almannatengslafulltrúa, og síðan haldið aftur upp á Egilsstaði, en þar átti að halda seinni tónleika þessa kóramóts í Egilsstaðakirkju. Þar varð húsfyllir og mikið gaman. Í allri þessari söngferð sáum við um að rukka við innganginn, enda eini kórinn með posa. Þegar upp var staðið fengum við dálítið upp í þann kostnað, sem kórinn lagði í ferðina og var það vel þegið. Á laugardagskvöldinu gerðu menn sér glaðan dag eftir allan sönginn. Var haldin mikil veisla í Brúarási og byrjaði hún á að Drífandi bauð í fordrykk. Þá fengum við alvöru Jökulsár-lamb og tilbehör. Síðan tóku við skemmtiatriði frá öllum kórum og voru þau af ýmsum toga. Heimir söng við góðar undirtektir og ýmislegt fleira var til boðs á dagskránni. Útilegumaður ofan úr Hrafnkelsdal var á endanum stoppaður af í annál sínum af alls kyns óáran þarna innan af öræfum. Átti hann þá enn eftir nokkrar blaðsíður og virtist ekki hafa hugmynd um hvað tímanum leið. Skemmtilegt erindi en hefði kannski betur passað á þorrablót. Á eftir var svo haldinn dansleikur fram á nótt. Fyrstu lögin á ballinu sungu Jöklarnir og fékk ég svo að vera með í bandinu síðasta klukkutímann eða svo. Þegar heim átti að halda var rútan straumlaus og tafðist ferðin um hálftíma eða svo. Á sunnudagsmorgni sá Hinrik svo um að koma Valmari og Kolla í messu og Bjönda heim í sýslu á hundódýrum bílaleigubíl.

Næsta stóra verkefni kórsins var náttúrlega sjálfir vortónleikarnir. Söngskráin var fyrsta verkið og gekk allvel að safna í hana auglýsingum. Alla vega betur en menn höfðu búist við. Það er ansi mikil vinna að keyra svona skrá í gegn og alltaf er eitthvað, sem manni finnst að hefði getað verið betur gert. Eitt af því, sem við þurfum að laga fyrir næsta ár, er að eiga nýja mynd af kórnum og var það bókað á stjórnarfundi að í maíbyrjun verði framvegis sérstök “myndatöku-æfing”, en þá mæta allir og í smóking að sjálfsögðu. Skráin kom út miðvikudaginn 12. maí og var borin út á hvert heimili í Eyjafirði, allt frá Ólafsfirði til Grenivíkur.

Fyrri vortónleikarnir voru sungnir í menningarhúsinu Bergi á Dalvík að kvöldi 14. maí og þótti okkur gott að syngja þar en hefðum viljað fá fleiri gesti í salinn. Var sá háttur hafður á að kynningar á lögunum fóru fram og aftur um allan kórinn og er það skemmtileg tilbreyting. Komu margar skemmtilegar sögur, sem menn höfðu lagt á sig að finna og gerðu kynningarnar áhugaverðari fyrir vikið.

Einsöngvarar að þessu sinni voru þrír tenórar: Jökla-gullmerkis-hafinn Erlingur Arason, vélaverkfræðingurinn Jónas Þór og bassatenórinn Heimir Bjarni Ingimarsson. Píanisti okkar þetta vorið var Jaan Alavere og skilaði hann sínu giska vel. Þá bar það einnig til tíðinda á þessum vortónleikum að kórinn flutti nýtt verk eftir einn liðsmann kórsins. Er það safn þriggja stuttra laga sem bera nafnið “Vorsyrpa”. Ekki veit ég til að þetta hafi áður gerst í KAG, en sjálfsagt einhvern tíma í gömlu kórunum. Gunnar Halldórsson á heiður skilinn fyrir framtakið og bestu þakkir frá kórnum. Vonandi kemur meira seinna.

Seinni tónleikarnir voru svo í Glerárkirkju og var sama kerfi haft þar á kynningum. Á undan tónleikunum var tækifærið notað og teknar um hundrað myndir af kórnum, bæði í kirkju og safnaðarheimili. Staðgengillinn Jaan verður síðar “sjoppaður” út í staðinn fyrir Hörð, sem mætti full seint til myndatökunnar. En tónleikarnir gengu í heildina vel og við fengum hátt í fulla kirkju. Nokkuð löng og margbreytileg efnisskrá að baki og alltaf verða möppurnar færri og færri. Það fer að verða raunhæfur möguleiki að við tökum möppulausa tónleika í náinni framtíð.

Karlakór Akureyrar-Geysi var einum boðið að sjá um opnun menningarhússins Hofs fyrir bæjarbúa á Akureyrarvökunni 28. ágúst. Munum við örugglega gera það eftirminnilega.

Miðað við stöðuna í dag, er starfið blómlegt hjá okkur og mér er til efs að kórinn hafi afkastað jafn miklu á einum vetri áður. Auðvitað viljum við vera sýnilegir og teljast ómissandi þáttur í hátíðahöldum okkar bæjarfélags. Þetta tvennt hangir óneitanlega saman. Kannski finnst einum vera of mikið af uppákomum, meðan öðrum finnst aldrei nóg. Seint verður hægt að gera öllum til hæfis í þessu tilliti, en vonandi erum við samt ánægðir með kórinn okkar.

Leiga á Lóni er með svipuðu sniði og undanfarin ár. Roar Kvam og Tónlistarskóli Eyjafjarðar skipta rýminu á milli sín nokkuð bróðurlega svona virku dagana og Harmonikkufélagið heldur dansleiki einu sinni í mánuði. Halli Höss reynir síðan að leigja salinn um helgar og gengur það þokkalega en mætti samt alveg vera meira.

Á árinu var sett upp kerfi frá Securitas í húsið og er það gríðarlegt öryggi og breyting til batnaðar. Reyndar gekk allt á afturfótunum fyrstu daga kerfisins og fengu Roar, Þuríður og fleiri háværar hringingar öryggisbjöllunnar á sig. Einn morguninn fór ég uppeftir einhverra erinda og gægðist á Sigurgeir Ísaks út um gættina þegar ég var að leggja bílnum. Lokaði hann hið snarasta og skildi ég ekki þetta hátterni fyrr en ég kom út úr bílnum. Var þá kerfið á. Einhver hafði gleymt að setja það á kvöldið áður og þegar Sigurgeir saklaus sem lamb mætti uppeftir til að mæla lengd á gömlu skrifborði, var það hans fyrsta verk að slökkva á kerfinu, en í raun var hann að setja kerfið á, og minnsta hreyfing inni kveikir á látunum. Þá hefur einnig hefur verið ráðinn dyravörður fyrir þær veislur, sem talið er að þurfi einhverja vöktun.

Í vetur var ráðist í að mála suðurstofu og ljósritunarherbergi. Þessi rými voru síðan parketlögð og mubleruð upp á nýtt. Formaður og varaformaður hjálpuðust að við að setja upp myndavegg í suðurstofu, en hin stóra mynd sem þar er í miðju mun víkja fyrir nýrri mynd af KAG og er meiningin að setja upp nýja mynd á hverju ári.

Þá var einnig fundin lausn á að loka barnum almennilega og héðan í frá þarf ekki að bera allt búsið niður í víngeymslu, sem eftir þetta verður eiginlega bara geymsla.

Merki kórsins er enn í vinnslu og er sú saga að verða ansi löng. Nú þarf að spýta í lófana og klára þetta verk, því stjórnin er með tilbúinn samning við fyrirtæki sunnan heiða um að gera fyrir okkur svokallaða “Softshell-jakka” sem verða merktir kórnum og hverjum og einum kórmanni. Fyrir nokkrum dögum fékk ég bréf frá stjórn Kötlu, sambandi sunnlenskra kóra, þar sem okkur er boðið að vera með á Kötlumóti þann 16. október næstkomandi og eiginlega finnst mér nauðsynlegt að klára þetta jakkadæmi áður en farið verður á það mót.

Í restina vil ég eins og síðasta ár benda á að þrátt fyrir fækkun í flestum kórum í kring um okkur, er jafnt og þétt fjölgun hjá okkur í KAG. Vona ég að nýliðunum, sem við eignuðumst þennan vetur, hafi liðið vel hjá okkur og þeir haldi áfram. Hef reyndar enga trú á öðru. Vil ég svo þakka ykkur öllum samveruna í vetur og hlakka til að hitta ykkur aftur í haust og helst enn fleiri…

Man ekki eftir meiru, enda orðið langt…
Gert í Davíðsbæ að kvöldi 17. maí, 2010.
Snorri Guð