Vetrarstarfið byrjar!!!

Nú er sumri tekið að halla og það þýðir meðal annars að hefðbundið vetrarstarf kórsins fer í gang. Fyrsta æfingin verður mánudagskvöldið 21. september og hefst klukkan átta í Lóni. Nú verður sá háttur hafður á æfingum að fyrir kaffi á mánudögum verða raddæfingar en eftir kaffi á miðvikudögum verður síðan farið í eldra efni, sem þarf að halda við og við eigum að kunna. Ýmislegt verður gert í vetur, smátt og stórt...

Í nóvember fáum við kór í heimsókn og í desember syngjum við á jólatónleikum. Um miðjan mars verður "Hæ tröllum"-mót, í apríl förum við svo á þriggja kóra uppákomu á Vopnafirði og Egilsstöðum til að efna loforð frá síðasta vetri. Í maí eru svo okkar hefðbundnu vortónleikar og ekki er loku fyrir það skotið að við förum suður að heimsækja stelpur...

Í vetur ætlum við að bæta við tungumálakunnáttuna okkar og æfa nokkur lög á þýsku og önnur á ensku. Auðvitað verða samt þau íslensku í fyrirrúmi. Ástæðan er að við stefnum á að fara til Skotlands og Englands sumarið 2011 ef kreppa og ástand leyfir.

Sem sagt nóg að gera hjá okkur "Syngjandi sælum" þennan veturinn...