Skýrsla formanns 2006

Árið 2006 var hreint ótrúlega pakkað af uppákomum hjá KAG. Það fyrsta var nú reyndar bara að éta og drekka og skemmta sér á Nýárs-skemmtun í Ketilhúsinu, en ef til vill lagði sú hátíð línurnar fyrir árið.


Fimmtudaginn 26. janúar var haldinn aðalfundur KAG. Fundarstjóri var Kolbeinn. Skýrsla formanns, þar sem sagt var frá afrekum síðasta árs, gjaldkeri með reikninga, kosning í stjórn og nefndir, allt eftir bókinni. Þá var stutt ferðakynning, umræður um notkun skammstöfunarinnar KAG, rætt um fyrirkomulag árshátíðar og fleira. Gekk þetta allt saman vel og allflestir hressir eftir brauð frá Brúarbakaríi og aðalfund.

Þann 18. febrúar hélt kórinn árshátíð, og sá fyrsti tenór um hana að þessu sinni. Var skipulagið slíkt að erfitt verður fyrir aðrar raddir að jafna það afrek. Hvergi veikur hlekkur. Undirritaður flúði land til að fá frí frá spilamennsku, en skilst að vel hafi til tekist. Gunni Tryggva og Herdís sáu um ballið.

Í mars var mikið um að vera og byrjaði kórinn á að fara þann 10. austur á land og heilsa upp á Drífanda, kór með heimilisfang á Egilsstöðum. Var þessi ferð hugsuð sem upphitun fyrir uppákomu viku seinna. Hittust kórarnir í Kirkju- og Menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Þar sungu báðir kórarnir, fyrst hvor í sínu lagi en síðan saman eftir hlé. Gestir voru ekki mjög margir, líklega fyllt tvo bekki eða svo. Eftir tónleikana fengu stjórnendur, undirleikarar og einsöngvarar blóm og allir voru glaðir. Haddi rakari hitti rakarann á Eskifirði og þeir urðu báðir rakir. Eftir þetta var haldið til Egilsstaða og gist þar á gamla herragarðinum. 
Drífandi bauð í óvissuferð snemma á laugardeginum. Reyndar vissu allir hvert átti að fara, en það gerði ferðina bara enn meira spennandi. Eftir hálftíma akstur var stoppað og úr skotti Drífanda-bíls boðið upp á bjór og harðfisk. Síðan var ekið inn undir Valþjófsstað í Fljótsdal og skoðuð sýning um væntanlega virkjun þar og stífluna stóru á Kárahnjúkum. Þá var lagt á fjallið. Sóttist sú ferð seint, því bíll Drífanda-formannsins dreif ekki upp drjúgar brekkurnar. Fór svo að sú eðal-bifreið var skilin eftir og farþegar settir yfir í rútuna til okkar. Uppi á hálendinu var skafrenningur og svona leiðinda veður.
Á endanum komumst við þó eftir nokkra tvísýnu alla leið og fórum í fylgd blikkandi forystubíls yfir stífluna og undir. Þá var veðrið þannig að blautt krapið sat á öllum rúðum rútunnar og enginn sá neitt af herlegheitunum. Eftir þetta var farið í stóra mötuneytið hjá Ítölunum og borðað, og borðað, og borðað. Þvílík veisla. Líklega tíréttað í hvert mál. Eftir að allir höfðu troðið í sig, var farið að stilla upp og svo sungið fyrir þau allra þjóða kvikindi sem þarna voru að borða. Líklega var þetta skemmtilegasti söngurinn í ferðinni og var mikið klappað og blístrað eftir hvert lag.
Eftir þetta ævintýri var farið aftur til Egilsstaða og sungið í yfirfullri kirkjunni. Á þeim tónleikum sat Haddi vinur okkar og félagi á aftasta bekk. Þegar tónleikunum var lokið, fóru flestir í Esso-sjoppuna en sumir keyptu sér samloku í rútunni. Síðan var haldið heim. Boðið var upp á frían bjór á heimleiðinni og urðu pissu-stoppin minnst fimmtán á þeirri leið.

Viku síðar var mótið okkar “Hæ, Tröllum” í Glerárkirkju. Þátttöku-kórar voru auk KAG, Drífandi frá Egilsstöðum, Karlakór Siglufjarðar og Þrestir úr Hafnarfirði. Hver kór var með korters prógram en síðan áttu allir að syngja saman. Meðan kórarnir æfðu samsöngs-lögin á laugardagsmorgni, fóru makar í skipulagða ferð um bæinn og fjörðinn. Allir hittust síðan í súpu og brauði í Lóni um hádegið. Tónleikarnir gengu vel og Rúnar ljósmyndari festi þann atburð á filmu.
Um kvöldið var mikil veisla í Lóni. Þangað mættu allir söngmenn ásamt mökum, sungu og skemmtu sér fram á nótt og nú slapp undirritaður ekki við að spila. Formenn fengu mynd af öllum kórunum í “action” sem þakklætisvott fyrir þátttökuna. Í hádeginu daginn eftir litu svo allir við í Lóni aftur, svona til að fá kaffi og kruðerí og bara að segja bless við félagana. Mótið tókst í alla staði mjög vel. Gjaldkerinn var allra manna glaðastur því við náttúrlega komum út með stórgróða af öllu saman.

5. apríl tók KAG þátt í fjáröflunartónleikum í Glerárkirkju. Þar var verið að safna í orgelsjóð. Sungum við tvö lög eftir Áskel Jónsson: Brimlendingu og Sönghvöt ásamt samsöng sem Hörður Áskelsson stjórnaði í lok tónleikanna.

Miðvikudaginn 10. maí héldum við tónleika í Húsavíkurkirkju. Þar fluttum við meðal annars nokkur Villa-lög og vorum með hljómsveit með okkur. Ari, Snorri og Heimir Ingimars sungu einsöng. Heimir með “Hrausta menn”.Hreims-menn fjölmenntu til okkar á tónleikana og voru síðan með móttöku fyrir okkur á eftir. Þar sagði Baldur formaður að hann hefði fundið til með tenórunum og verið orðið illt í hálsinum af öllum þessum háu tónum sem þeir hefðu þurft að syngja. Flott boð hjá Hreim og til eftirbreytni. Alli Páls var með alla tenórana í einum stórum bíl og skilst mér að þeir hafi þurft að hleypa vel úr dekkjunum, þvílíkt hafi loftið verið í tenórunum sjálfum. Á heimleiðinni var boðið upp á Sherry og Koníak í Ritara-bílnum fyrir fáa útvalda. Ekki veit ég hvað var boðið uppá í hinum bílunum, en “Líflæknirinn” sá um sína.

Líður nú allt í rólegheitum fram á föstudaginn 12., en þá eru vortónleikarnir okkar í Glerárkirkju. Sömu einsöngvarar og á Húsavík og að mestu sama prógram en þó bættist við “Sönghópur Tónlistarskólans”. Gengu þessir tónleikar vel, margir mættir og mikið klappað fyrir okkur. Fyrir þessa vortónleika gáfum við út söngskrá og gekk afar vel að safna í hana auglýsingum. Sú nýbreytni hefur nú verið tekin upp að láta bera skrána í hvert hús á Akureyri með Dagskránni og losar það okkur við heilmikla þegnskylduvinnu. Þá er líka stefnan að hafa eitthvert kjöt á beinunum, þ.e.a.s. lesmál og fróðleik í skránni. Þessi skrá er ein af okkar stærstu tekjulindum og vex vonandi áfram.

Laugardaginn 13. maí var síðan vorfagnaður KAG í Lóni. Atli Guðlaugsson var í bænum með Grundartangakórinn og var þeim boðið að vera með. Úr varð heljar mikil veisla í mat og drykk og ógleymanlegt verður örugglega Kattadúetts-atriði þeirra Mikka og Atla. Í dag væri kannski nær að kalla það “Svartur köttur – Hvítur köttur”. Þarna voru Eggert húsvörður og Jónas “hitalausi” heiðraðir fyrir afar vel unnin störf í þágu KAG. Menn fengu páskaegg með kaffinu og sumir fengu þau kramin í verðlaun fyrir eitt og annað. Heimir Ingimarsson fékk styrk til áframhaldandi söngnáms að upphæð krónur 100.000,- . Stuttu síðar hélt Heimir sína Útskriftar-tónleika. Mættum við þangað og tróðum upp þegar dagskrá var lokið og létum strákinn syngja “Hrausta menn” enn og aftur.

Á sjómannadaginn var sungið á Eimskipafélagsbryggjunni, messa með hefðbundnu sniði í Glerárkirkju á Uppstigningardag, og sungið við Menntaskólann á Akureyri við vígslu minningarsteins um Hermann Stefánsson og Þórhildi Steingrímsdóttur þann sautjánda júní. Þá var sungið við loka-athöfn Verslunarmannahelgarinnar á íþróttavellinum. Þar þurfti að tefja tímann eins og hægt var, því ekkert var píanóið á staðnum og fór “líflæknirinn” ásamt vaskri sveit alla leið í Lón að ná í eitt slíkt. Stóð á endum að við vorum kallaðir á grasið, þegar burðardýrin birtust. Þar sungum við eins og englar í golunni og létum svo alla viðstadda taka undir í afmælissöngnum, en Michael Jón Clarke átti þann dag. Aladár spilaði undir, því Helena var með fulla rútu af Frökkum týnd uppi á hálendinu.

Í Hrísey áttum við að syngja um miðjan júlí, en hætt var við það. Rugl með tíma.    Á menningarvöku okkar Akureyringa sungum við á tveimur stöðum. Fyrst fyrir okkar stærsta styrktaraðila: Sparisjóð Norðlendinga, en síðan í loka-atriði vökunnar á torginu. Þegar kveikt hafði verið í gömlu orgeli og það stóð í ljósum logum, sungum við: Brennið þið vitar!!!

Segja má að ekkert sumarfrí hafi verið tekið þetta árið, því einni viku síðar var farin “Haustferð”. Hún átti bara að vera svona smá óvissu-þáttur, til að hrista menn saman og eiga glaðan dag. Það tókst með slíkum ágætum, að “Haustferð” verður alltaf farin héðan í frá fyrsta laugardag í september. Bílstjóri í þessari var Sigurður nokkur annar bassi, sem reyndar er í fríi í vetur. Ekið var sem leið lá til Ara Jóhanns (fyrrverandi hreppstjóra) þegnar veitingar sem voru súrt slátur og landi, en síðan slegið í og farið yfir Vatnsskarðið. Þar býr Einar bóndi Kolbeinsson og tók hann allan söfnuðinn í kjötsúpu og fleira.
Eftir það var farið í Blönduvirkju. Þeir voru að vísu búnir að neita okkur um inngöngu, sögðu að þarna væri bara lágmarksgæsla og enginn til að sinna okkur. Þá kemur að þætti Knúts nokkurs Otterstedts sem hringdi nokkur símtöl, vakti menn upp og rak þá upp úr sundlaug og.... leysti málið. Stöðvarstjórinn kom, bugtaði sig og beygði fyrir sínum fyrrum yfirboðara og sýndi okkur allt markvert. Þurfti að bakka niður 800 metra löng göng að stöðinni. Þar var sko ekkert stórt stæði. Eftir það frækilega afrek er Siggi nú þekktur sem Sigurður Backman.

Næst lá leiðin Heim að Hólum, en þar fengum við skipulagða skoðunarferð um sýningu, kirkju, turn, fornleifauppgröft og Auðunnarstofu. Eftir það fórum við á tjaldstæði, átum og drukkum og héldum heim. Um kvöldið var síðan grill-veisla í Lóni. Ég held að allir, sem voru með í þessari ferð séu sammála um að þetta verði gert aftur að ári.

Þann 6. okt. tókum við þátt í tónleikum í Akureyrarkirkju ásamt fjölmörgum öðrum. Musterisriddarar áttu heiðurinn af þessari uppákomu sem yfirfyllti kirkjuna.

3. des vorum við með Kaffihlaðborð í Lóni, sungum m.a.Villa-lög og allir tóku undir í fjöldasöng í hléi. 17. des var svo Jólafundurinn okkar með hangikjöti og “tilbehör. Séra Arnaldur Bárðarson flutti okkur hugvekju á rólegu og notalegu kvöldi. Pakka-uppboð okkar Alla hleypti smá fútti í partýið og nánast dekkaði útlagðan kostnað á kvöldinu og bjargaði andlitinu á gjaldkeranum.

Glerártorg er orðinn árviss partur af prógrammi kórsins og var sungið þar bæði 21. og 22. desember. Roar Kvam mætti held ég í bæði skiptin. 24. des var svo samkvæmt venju sungið á FSA. Þar komast færri að en vilja. Sungið var á fjórum stöðum í byggingunni á milli hálf-þrjú og fjögur. Eggert var næstum lagður inn á Sel eftir síðasta sönginn.

Á gamlársdag var Lón opið að venju milli eitt og þrjú. Líklega hefur gleymst að láta nýja félaga vita af þessum sið. Þeir alla vega sáust ekki. Talandi um þá, þá held ég að aldrei hafi flottara lið bæst við að hausti. Það, sem meira er – þeir eru hér enn.....

Næst er svona nokkurs konar annáll annarra mála:

Við eignuðumst alvöru “Ljósku” í haust. Hún er inni í nótnaherbergi og ég fer yfirleitt á hverri æfingu og sinni henni svona smá stund. Hún getur það báðum megin og afkastar svona 20 á mínútu.Fullu nafni heitir hún Ljósritunarvél og er alveg frábær.

Við keyptum möppur á línuna fyrir Villa-prógrammið okkar, tókum að okkur símasölu á Vikudegi, bárum saman bækur fyrir Héraðsskjalasafn og tókum þátt í að selja kort fyrir MS-félaga Tomma.

Úr stjórnarráðinu eru líka þær fréttir, að unnið var áfram í að losna við súlurnar úr salnum og glittir í endalokin á því máli, eldhúsið er að fara í algjöra endurnýjun, gólfið í salnum verður lagað þegar súlurnar eru farnar, málað verður hér og þar, klárað að raða nótunum og koma þeim í aðgengilegt kerfi, endurhanna fundaherbergið, lakka gólfið niðri, og ýmislegt fleira fleira spennandi. Þá er búið að gefa grænt ljós á þátttöku í hátíðahöldum í kring um 16. nóvember í haust. Er það á vegum menningarfélagsins Hraun í Öxnadal. Þann dag eru 200 ár liðin frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar. Ekki er enn farið að skipuleggja þá uppákomu. Fulltrúar Samfylkingar mættu á okkar fund í haust og vildu heyra okkar viðhorf til menningarmála hér, upplýsingar um KAG fóru á heimasíðu Akureyrarbæjar í vor, og Akureyrarbær keypti af okkur 150 geisladiska. Þurfum líklega að fara að pakka meiru.

Í lokin langar mig að telja upp þá, sem ég kýs að kalla Vildarvini KAG. Menn, sem alltaf verða fyrir barðinu á okkur stjórnarmönnum, þegar eitthvað stendur til. Þeir eru: Andrés Brúarbakari, Valli í Kjörís, Davíð sölumaður Góu – Lindu, Dóri í Víking, Eiður í Kjarnafæði, Bjarni í Mat og Mörk, Siggi í Nóa – Siríus og Gunni Nella hjá Goða. Gott að minnast þeirra, þegar farið er út að versla.

Man ekki eftir meiru.
Snorri Guðvarðsson, formaður