Skýrsla formanns 2018

Það var gaman að fara yfir starfsárið og rifja upp fjölmargt sem við höfum gert saman þessa mánuði. Við vorum búnir að taka lagið áður er haustið byrjaði formlega, og sumt mátti ekki fréttast. Það var ánægjulegt að syngja í brúðkaupinu hans Óla í fyrrasumar og magnað hvað okkur tókst að þegja svo konan hans myndi ekki frétta af kórnum. En það var lítil leynd yfir söngnum á Akureyrarvöku um borð í Húna í siglingu um Eyjafjörð.

5. september hittumst við á haustfundi og vetrarstarfið var hafið. Við entumst bjórlausir í sirka mánuð, en fyrstu helgina í október bauð Arnar okkur í veislu heim að Hranastöðum. Frábær ferð og höfðinglegar móttökur, sveitafitness, hamborgarar og söngur fram í myrkur! Við skulum svo sannalega vonast eftir heimboði í Hranastaði aftur. „Aumingja þeir sem mættu ekki,” sá ég að ég hafði skrifað á Facebook!

Helgina eftir tókum við svo þátt í sýningu, eða gjörningi, með Önnur Richards. í Kaktus inni í Hafnarstræti, gamla Lóni. Sýningin Jelly Me, var sannarlega óvenjulegt verkefni, söngur dans og búningar og mikil sulta! Þetta er í annað sinn sem við tökum þátt í verkefni með Önnu, Flugtónleikarnir í flugskýli 13 gleymast seint.

Í október var kallað eftir aðstoð söngmanna til að syngja kórkaflann í Finlandia í Hofi, en Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flutti þá verkið í heild sinni. Nokkrir gáfu sér tíma í það ásamt söngmönnum úr fleiri kórum.

Hangikjötskvöldið var á sínum stað 1. desember. Samt eru blikur á lofti með það hvort þessi eldgamli siður kórsins er að leggjast af. Þátttakan í vetur var allavega sögulega léleg og spurning hvort stemmningin fyrir þessu kvöldi er að dofna. Vonandi ekki, því þetta er góð stund.

Líkt og veturinn 2016 héldum við ekki eiginlega jólatónleika, heldur sungum jólasöngva hér og þar. Við sungum fyrir Oddfellow, við sungum á Glerártorgi. Svo var árviss söngur á Hlíð og Lögmannshlíð og einnig á Sjúkrahúsinu. Þar varð til ansi magnað moment í fallegu Heims um bóli á stigagangi milli hæða. Vinnum betur með það um næstu jól! Okkar ómissandi hittingur á gamlársdag var svo á sínum stað. Og svo endaði Karlakór Akureyrar-Geysir árið 2017 með því að syngja fyrir alla þjóðina á RÚV á gamlárskvöld! Gömul upptaka af Sjá dagar koma.   

Þriðjudaginn 9. janúar var fyrsta æfing á nýju ári. Þá fórum við að fá í hendur splunkunýtt efni sem við vorum með á milli handanna, með hléum, fram á vor. Þennan vetur héldum við Hæ-Tröllum kóramótið okkar. Það hefði frestast í tvö ár, af ýmsum orsökum. Frábærlega vel heppnað, Karlakór Vopnafjarðar og Karlakór Bólstaðahlíðarhrepps voru gestir okkar og saman fylltum við Glerárkirkju nokkurn veginn. Um 300 gestir mættu á tónleikana og svo mikil og góð veisla um kvöldið. Ég mæli með því að við höldum Hæ-Tröllum aftur eftir tvö ár, mótið gefur okkur mikið, við kynnumst félögum í öðrum kórum og höfum af því fínar tekjur.

Daginn eftir vorum við mættir í Akureyrarkirkju til að syngja á styrktartónleikum fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna. Neistinn styður fjölskyldur hjartveikra barna og ungmenna á ýmsan hátt, en Hjörleifur og Rannveig héldu þessa tónleika og ástæðuna þekkjum við vel. Það var virkilega vel gert af ykkur kæru félagar að bregðst fljótt við og leggja þessu málefni lið.

Í mars héldum við árshátíð í umsjón 1. tenórs. Borðuðum góðan mat, sungum klósettsöng, skemmtun okkur saman og dönsuðum með Bráðavaktinni. Alþjóðleg stemmning þar sem Ho Chi Minh, Adolf Hitler og Arctic Opera áttu kvöldið öðrum fremur.

Vortónleikarnir, hápunkturinn á starfsárinu, voru 29 apríl. Mjög sérstakir tónleikar, þar sem við fluttum efni eftir ágæta kórfélaga, Óla, Ivan, Svavar og Gunna. Þetta gera ekki allir karlakórar, því eins og við lögðum áherslu á, er afar sjaldgæft að karlakórstónleikar séu að stórum hluta byggðir upp á efni eftir kórfélaga. Hjörleifur útsetti flest þessarra laga og skrifaði auk þess strengjakavartett inn í tónleikana. Vel gert allir saman!  Vortónleikarnir voru snemma að þessu sinni, sem ég held að sé mjög gott. Það hefur ýmsa galla að draga tónleikana mikið lengur og fínt að klára törnina áður en sólin fer að skína. 1. maí skelltum við okkur svo í tónleikaferð til Grenivíkur. Fínasta ferð og góðar móttökur hjá Grenvíkingum. Við komumst reyndar að því þar, eins og stundum áður, að íþróttahús eru ekki hönnuð til tónleikahalds.

Nú dagurinn í dag fór að hluta til í söng í Glerárkirkju. Árlegur messusöngur þar, fyrst og fremst í þeim tilgangi að greiða fyrir húsaleigu á Hæ-tröllum. En einnig fín auglýisng fyrir kórinn og svo er bara svo gaman að syngja!

En kæru félagar, það er fjörugt starfsár að baki. Óvenjulegt starfsár að mörgu leyti og ýmsar óvæntar áskoranir sem við leystum. Og þar kom í ljós að þegar á reynir er samstaðan fyrir hendi og saman getum við gert allan skollann, leyst erfiðar þrautir og farið nýjar leiðir ef svo ber undir.

Hér síðar á fundinum munum við ræða kórstarfið frá ýmsum hliðum og vonandi verður það góð umræða. Við þurum við ákveða hvað við gerum hér í húsinu. Lón er ekki orðið í sem bestu ástandi og við því verðum við að bregðast. Til að geta leigt það út áfram þarf að ráðast í ýmsar endurbætur.

Menningarsamningurinn við Akureyrarbæ rann út í árslok og hann höfum við nú endurnýjað til þriggja ára. Hann hækkar frá fyrri samningi og samkvæmt honum fáum við 500 þúsund á ári frá bænum, sem hækkar í þrepum í 600 þúsund á samningstímanum.

Ég vil fyrir hönd stjórnar Karlakórs-Akureyrar-Geysis, þakka ykkur frábært samstarf á starfsárinu. Takk fyrir góðan félagsskap, takk fyrir góða samstöðu, takk fyrir skemmtilegan söng. Ágætu stjórnarmenn, kærar þekkir fyrir samstarfið.

Í þessu ávarpi mínu í fyrra minntist ég á þá fækkun sem verður frá fyrsta æfingadegi að hausti fram að vortónleikum. Þetta gerðist aftur núna og er eitthvað sem við þurfun að tækla næsta vetur og mæta fjölmennari á vortónleika. Ég sagði líka í fyrra að kórstarfið væri öflugt og það er það. Karlakór Akureyrar-Geysir er sterkt félag og nýtur virðingar. Við höfum fengið magnaða viðbót af nýjum söngmönnum, ungum þar á meðal. Höldum þá góðu drengi.

Ég er að ljúka því tveggja ára starfi formanns sem ég var kjörinn til og því er kjör formanns á dagskránni hér á eftir. En ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram og það kemur í ljós hvernig aðalfundurinn tekur á því.

Að þessu sögðu læt ég þessari yfirferð yfir starfsárið lokið – takk fyrir mig!

Ágúst Ólafsson, formaður KAG.