Fréttir

"Hæ. Tröllum" nálgast...

KAG hefur annað hvert ár staðið fyrir kóramóti, sem nefnist "Hæ. Tröllum". Nú verður það haldið þann 20. mars. Þátttökukórar að þessu sinni verða bræður okkar í Karlakór Eyjafjarðar, Karlakór Bólstaðarhlíðar og Karlakór Selfoss. Gegn um tíðina hefur verið reynt að fá góðan þverskurð af íslenskum karlakórum á hvert mót og hefur það tekist vel að þessu sinni. Litlir og stórir að norðan og sunnan. 

Sungið fyrir Davíð

Davíð Stefánsson, skáld frá Fagraskógi, var fæddur 21. janúar 1895 og er 115 ára afmæli skáldsins því minnst í ár. Á sjálfan afmælisdaginn var vegleg dagskrá í Ketilhúsinu á Akureyri þar sem fram komu ýmsir listamenn. Þar á meðal Karlakór Akureyrar-Geysir. Verk Davíðs Stefánssonar eru stór hluti af viðfangsefnum KAG og ekkert starfsár kórsins er án laga við ljóð Davíðs. 

Merkisafmæli og -menn

Tveir KAG-félagar náðu merkum áfanga í lífinu á dögunum og fylltu marga tugi, 140 samtals! Séra Gunnlaugur fagnaði sextugsafmæli sínu og Ingvi Rafn varð áttræður. Fyrir báða þessa heiðursmenn var að sjálfsögðu sungið! 

Framkvæmdir í Lóni

Undanfarið hafa nokkrir laghentir KAG-félagar unnið að miklum endurbótum í „suðurstofunni“ í Lóni og skjalageymslu kórsins. Hent var út gömlu gólfteppi og gólfin lögð fíneríis eikarparketi í staðinn. Þá var allt málað hátt og lágt og nýjar innréttingar keyptar í skjalageymsluna. Skemmst er frá því að segja að munurinn er mikill!