Skýrsla formanns 2017

Að loknum aðalfundi 9. maí 2016 gerðum við margt skemmtilegt áður en vorprógrammið var á enda. 20. maí tókum við á móti Penn State Glee Club, bandarískum kór ungra karla. Hittum þá hérna í Lóni í skemmtilegri móttöku. Vortónleikar síðasta starfsárs í Hofi 2. júní einkenndust af Ítalíuferðinni okkar sem var á dagskrá þá síðar í mánuðinum. Vortónleikana endurtókum við svo í Bergi á Dalvík með stuttri viðkomu hjá íbúum á Dalbæ.

21. júní fórum við til Ítalíu. Aldeilis frábær og vel heppnuð ferð í alla staði. Átta dagar, flug til Þýskalands, rúta í gegnum Austurríki yfir Brennerskarð niður til Bolzano í Suður-Týról. Frábært veður, frábær fararstjórn, frábær hópur og frábær skemmtun. Skoðunarferðir, beinar fótboltaútsendingar, fréttaviðtöl í blöðum, útvarpi og sjónvarpi. Söngur á torgum og í kirkjum. Hápunkturinn var síðan tónleikar í Ortisei til heiðurs Sigurði Demetz Franssyni, og móttökurnar þar voru einstakar og eftirminnilegar. Þessi ferð gleymist auðvitað seint og hún hefur reynst kórnum einstklega dýrmæt, efldi samstöðuna og þétti hópinn. Og nú er hafin undirbúningur að annarri ferð og ný ferðanefnd farin að vinna á fullu. Nánar um það hér síðar á aðalfundinum.

Hauststarfið hófst á stefnumótunarfundi 13. September. Þar fóru KAG félagar í rækilega skoðun á starfinu; veikleika, ógnanir, styrkleika og tækifæri. Mjög góð vinna sem við búum að. Við eigum ítarlega skýrslu sem er gott að glugga í og rifja upp. Þessi vinna okkar í haust hefur haft áhrif á allt starfið síðan og sett margt í ákveðinn fókus sem gott er að hafa til hliðsjónar.

Viku seinna var fyrsta æfing og þá var keyrt af staða af fullum krafti. 8. október sungum við, eða hluti kórsins, fyrir konur í miðbænum á Dömulegum dekurdögum. Ég veit ekki hversu dömulegt samstarfið var sem við hófum við Önnu Richardsdóttur í kjölfarið. Það endaði með aldeilis stórskemmtilegum tónleikum í Skýli 13 á Akureyrarflugvelli 19. nóvember. Þarna vorum við teknir út fyrir þægindarammann og höfðum gott af held ég og sem betur fer mikið gaman.

Við sungum þegar KEA úthlutaði styrkjum á fullveldisdaginn 1. desember.

Hangikjötskvöldið er hefðbundið, það héldum við líka 1. desember eins og vera ber. Það voru engir eiginlegir jólatónleikar þennan veturinn, heldur sungum við jólasöngva hér og þar á Akureyri. Auðvitað sungum við á Hlíð og Lögmannshlíð fyrir okkar vini þar og einnig á Sjúkrahúsinu. Ég missti svo sjálfur af hinni þægilegu stund hérna í Lóni á gamlársdag, 30 ára skemmtileg hefð það.

Mér telst til að fyrsta æfing á nýju ári hafi verið 10. janúar og þá strax hófst undirbúningur fyrir Heklumót á Dalvík. Heklumótið átti hug okkar allan næstu vikurnar með nokkrum hliðarverkefnum, eins og afmælissöng í fimmtugsafmæli og söng til heiðurs Leonard Cohen á Græna hattinum. Og Cohen fylgdi okkur áfram í skemmtilegri útgáfu af Hallelujah!

Árshátíðin var á sínum stað, að þessu sinni 18. mars undir dyggri stjórn annars bassa og tókst mjög vel. Miklir leik- og söngsigrar hjá öllum röddum. 24. mars sungum við fyrir kúabændur landsins á aðalfundi þeirra í Hofi. Heklumótið brast svo á 22. apríl, 10 kórar, 330 söngmenn. Virkilega vel heppnað mót og gaman að hitta félaga úr öðrum kórum og kynnast starfi þeirra.

Eftir Heklumót hófst snörp æfingahrina fyrir vortónleika sem að þessu sinni voru í samstarfið við Þjóðlistahátíðina Vöku. Tónleikarnir voru jafnframt upphafstónleikar Vöku. Virkilega vel heppnaðir og skemmtilegir tónleikar þar sem Hjörleifur útsetti og skrifaði saman karlakór og allskyns þjóðlagahljóðfæri og auðvitað einsöng, tvísöng og kvintett. Vortónleikarnir voru virkilega góður endir á mjög fjölbreyttu starfsári.

Það hefur ýmist annað en söngur og tónleikahald verið til umræðu á starfsárinu. Þar á meðal salan á Lóni. Það var óvænt þegar fulltrúar Hjálpræðishersins höfðu samband og spurðu hvort Lón væri til sölu. Eftir að kórfélagar höfðu gefið stjórninni leyfi til að svara þeirri spurningu, var húsið auglýst til sölu og óskað tilboða. Skemmst er frá því að segja að í rúmlega hálfs árs löngu ferli, bið eftir viðbrögðum og tilboðum frá þessum áhugasama kaupanda, barst aðeins eitt formlegt tilboð sem við mátum of lágt. Hjálpræðisherinn tilkynnti okkur á endanum fyrir skemmstu að þeir væru hættir að bjóða í og um leið að kaupa. Þetta útskýrum við betur og ræðum í sérstökum lið undir önnur mál hér á eftir. Talandi um Lón þá var eldhúsið endurnýjað frá grunni og eigi þeir bestu þakkir sem þar fóru fremstir í flokki.

Þegar ég var að undirbúa þetta yfirlit yfir starfsárið, fann ég eftirfarandi kafla í ávarpi formanns vorið 2013:„Vandi okkar á þessu starfsári, sérstaklega þó seinni hluta þess, var brottfall úr einstaka röddum. Þetta verðum við að skoða vel næsta vetur. Menn sem byrja að æfa með kórnum verða að halda tímabilið út. Auðvitað kemur ýmsilegt óvænt upp á hjá mönnum, veikindi eða annað sem ekki er hægt að ráða við. Við því er ekkert að gera og auðvitað sýnum við því fullan skilning. En það er ekki ásættanlegt þegar menn hætta á miðju æfingatímabili af því að það er orðið svo mikið að gera á öðrum vígstöðvum. Menn verða að gera það upp við sig þegar þeir byrja að æfa með kórnum, að þeir hafi tíma fyrir kórstarfið. Þetta er hópavinna þar sem stöðugur fjöldi og góð mæting í hverri rödd skiptir máli. Það er mjög erfitt þegar búið er að ákveða verkefnin með sterkan hóp, ef hópurinn brotnar svo upp þegar nálgast tónleika.“

Þannig hljómaði þessi fjögurra ára gamli texti. Þetta er ansi kunnuglegt og gerist held ég á hverju starfsári. Enda ekki hægt að ráða við óvæntar breytingar. En skipuleggjum okkur endilega með tilliti til þess að geta tekið þátt í tónleikum sem við erum búnir að eyða ómældum tíma og kröftum í að æfa fyrir. Við vorum 36 á vortónleikunum, 10-12 færri en venjulega.

En kæru félagar, ég vil fyrir hönd stjórnar Karlakórs-Akureyrar-Geysis, þakka ykkur frábært samstarf á starfsárinu. Góðan félagsskap og skemmtilegan söng. Þrennir eiginlegir tónleikar eru að baki, og þeir fjórðu á Ítalíu ef við teljum það með þessu starfsári. Auk jólasöngva, sem auðvitað voru tónleikar út af fyrir sig.

Kórstarfið er öflugt, KAG er sterkt félag og nýtur virðingar. Við erum með góðan söngstjóra, góða söngmenn, það er fín endurnýjun, ungir söngmenn og eldri. Fjölgun í kórnum er auðvitað stanslaust verkefni og það heldur áfram. Það er gaman að leiða þetta starf sem formaður í góðri stjórn.

Að þessu sögðu læt ég þessari yfirferð yfir starfsárið lokið og ég er bjartsýnn fyrir næsta starfsár og framtíð kórsins!

Ágúst Ólafsson, formaður KAG.