Viltu vera með?

Nokkrar hagnýtar upplýsingar um Karlakór Akureyrar-Geysi.

Karlakór Akureyrar-Geysir var stofnaður haustið 1990 í kjölfar sameiningar Karlakórsins Geysis (1922) og Karlakórs Akureyrar (1929). Starfsemi þessarra kóra hefur í gegnum áratugina haft mikil áhrif á tónlistarlífið á Akureyri. Starf Karlakórs Akureyrar-Geysis er afar fjölbreytt enda er kórinn mjög sýnilegur í menningarlífinu og fjöldi fólks sækir viðburði hans og tónleika.  Formaður KAG er Ágúst Ólafsson og söngstjóri er Steinþór Þráinsson. Kórfélagarnir eru ríflega 50.

Heimili KAG er í Lóni við Hrísalund sem kórinn á og rekur. Húsnæðið er leigt út til ýmissa aðila, þegar kórinn er ekki að nota það sjálfur, bæði í langtímaleigu og til einstaka viðburða.

Reglulegt starfsár kórsins hefst í september og lýkur í maí. Á sumrin tekur kórinn þó þátt í ýmsum hátíðahöldum í bænum, til dæmis á sjómannadag, 17. júní og á Akureyrarvöku. Hefðbundin vetrardagskrá inniheldur m.a. jólatónleika í einhverju formi, vortónleika, söngferðir út og suður, söng við jarðarfarir og ýmis önnur tækifæri. Þá hefur KAG staðið fyrir “Hæ tröllum“, fjögurra kóra móti á Akureyri síðan 2005.

Að sjálfsögðu má hvorki gleyma reglulegum söngæfingum, sem haldnar eru í Lóni einu sinni í viku, á þriðjudögum frá kl. 20 til 22, né ýmsum samkomum sem kórinn heldur fyrir félaga sína. Þar má til dæmis nefna árshátíð, jólahlaðborð og þorrablót. Það er stefna kórsins að makar félaga séu ætíð velkomnir, bæði á samkomur og í söngferðir.

Á tónleikum klæðast kórfélagar svörtum smóking, viðeigandi hvítri skyrtu og hafa svarta slaufu um háls. Þennan klæðnað þurfa menn að leggja sér til sjálfir. 

Flest félög þurfa að leggja félagsgjöld á meðlimi sína til að standa undir rekstri. KAG er þar engin undantekning. Nú er félagsgjaldið 20.000 krónur á ári.

Viltu ganga í kórinn? Hringdu þá endilega í Ágúst formann í síma 892 6700. Vertu hjartanlega velkominn!