Nokkrar hagnýtar upplýsingar um Karlakór Akureyrar-Geysi.
Karlakór Akureyrar-Geysir var stofnaður haustið 1990 í kjölfar sameiningar Karlakórsins Geysis (1922) og Karlakórs Akureyrar (1929). Starfsemi þessarra kóra hefur í gegnum áratugina haft mikil áhrif á tónlistarlífið á Akureyri. Starf Karlakórs Akureyrar-Geysis er afar fjölbreytt enda er kórinn mjög sýnilegur í menningarlífinu og fjöldi fólks sækir viðburði hans og tónleika. Formaður KAG er Benedikt Sigurðarson og söngstjóri er Steinþór Þráinsson. Kórfélagarnir eru kring um 50.
Æfingahúsnæði kórsins næsta ár verður í kennslusal Rauðakross Íslands við Viðjulund.
Reglulegt starfsár kórsins hefst í september og lýkur í maí. Á sumrin tekur kórinn þó þátt í ýmsum uppákomum ef þannig stendur á, t.d. Akureyrarvöku. Hefðbundin vetrardagskrá inniheldur m.a. jólatónleika í einhverju formi, vortónleika, söngferðir út og suður, söng við jarðarfarir og ýmis önnur tækifæri. Þá hefur KAG staðið fyrir “Hæ tröllum“, fjögurra kóra móti á Akureyri annað hvert ár síðan 2005.
Að sjálfsögðu má hvorki gleyma reglulegum söngæfingum, sem haldnar eru einu sinni í viku, á þriðjudögum frá kl. 20 til 22, né ýmsum samkomum sem kórinn heldur fyrir félaga sína. Þar má til dæmis nefna árshátíð, jólahlaðborð og þorrablót. Það er stefna kórsins að makar félaga séu ætíð velkomnir, bæði á samkomur og í söngferðir.
Á tónleikum er hefð fyrir því að kórfélagar klæðist svörtum smóking, viðeigandi hvítri skyrtu og hafa svarta slaufu um háls. (Þennan klæðnað hafa menn þurft að leggja sér til sjálfir (hægt að leigja eða kaupa á sanngjörnu verði hjá Rauðakrossinum). Aðlfundur 11.maí 2021 samþykkti að setja af stað nefnd þriggja félaga til að endurskoða fataval og leggja upp tillögur um "dresskóða" og reglur varðandi fatnað á tónleikum, í ferðalögum og formlegum verkefnum þannig að líklegt er að breytingar verði á fatavali.
Flest félög þurfa að leggja félagsgjöld á meðlimi sína til að standa undir rekstri. KAG er þar engin undantekning. Nú er félagsgjaldið 25.000 krónur á ári.
Viltu ganga í kórinn? Hringdu þá endilega í Benedikt formann í síma 869 6680 - eða mæltu þér mót við söngstjórann til að fá raddprufu (Steinþór Þráinsson 898 3378). Vertu hjartanlega velkominn!