Frábært Heklumót á Húsavík

Heklumót hið sautjánda var haldið á Húsavík laugardaginn 1. nóvember. Þátt tóku átta kórar, víðs vegar að af sambandssvæðinu; Ernir, Bólhlíðingar, Heimismenn, Dalvíkingar, Eyfirðingar, KAG, Hreimur og Drífandi. Kórarnir mættu hver á fætur öðrum og byrjuðu á að fá sér kaffi og hitta aðra kórmenn. Sameiginleg æfing hófst svo upp úr tíu. Valmar hitaði menn upp og svo tók hver stjórnandinn við af öðrum.

Meðan þessu fór fram, sat Björn nokkur Sigmundsson tæknimaður hjá RÚV í bakherbergi og hrærði í tökkum. Þessir tónleikar yrðu nefnilega teknir upp. Heimamaðurinn Kristján Halldórsson var hins vegar með risastórt hljóðkerfi til að magna upp kórana fyrir gesti tónleikanna.
Makar fóru í skipulagða ferð um Húsavík í fylgd með konum Hreimsmanna meðan æfingin stóð yfir. Byrjað var í kirkjunni, en svo kom Hvalasafnið og fleiri staðir. Endaði ferðin síðan á heimsókn í Norðlenska og þar fengu stelpurnar matarmikla kjötsúpusúpu, ilmvatnsprufu og geisladisk með Karlakórnum Hreim.
Eftir hádegi fóru söngmenn að skipta um föt. Allt var tilbúið löngu fyrir tvö. Sigurður Aðalgeirsson formaður Heklu-nefndar setti mótið og Huld Aðalbjarnardóttir bauð alla velkomna fyrir hönd Norðurþings. Kynnir mótsins var Baldur formaður Hreims og var skemmtilegur. Hver kór söng þrjú lög og gengu hlutirnir afar fljótt og vel fyrir sig.
Ernir, að vestan, voru fyrstir. Lög þeirra voru: Landið bjarta, Hornbjarg og Gamli vinur, en það lag er eftir Mugison og var samið fyrir kórinn. Auðvelt var að ímynda sér hann sjálfan syngja lagið, svo sterk voru höfundareinkennin. Flottir.
Drífandi, austan af héraði kom næst og flutti: Á vorsins vængjum, Storm og Gaute mater polonia. Stormur er eftir píanista kórsins. Átti Baldur í mestu erfiðleikum að koma nafni hans rétt frá sér og kom nafnið upp aftur og aftur. Mikið gaman að því.
Bólhlíðingar áttu um lengstan veg að fara á laugardeginum. Ekki var að merkja á þeim ferðaþreytu þegar þeir renndu sér virðulega í gegn um sitt prógram: Mansöngur, Þér landnemar og Ljósbrá. Thomas Higgerson var fenginn að láni í undirleikinn.
Dalvíkingar mættu næst glaðbeittir á palla með lögin sín: Víkingar, Sjómenn íslenskir erum við og Mál er í meyjarhvílu. Lagið flott en texti Klaufa berserks ekki fyrir yngri en átján ára. Gaman að heyra skeiðaspil í verki frá bræðrunum Jónasi og Jóni Múla.
Fimmti kór á svið var Karlakór Eyjafjarðar. Þeir sungu: Veiðiljóð, Hér á ég heima og Haldiðún Gróa hafi skó. Baldur kynnir beindi þeirri spurningu til undirleikara síns kórs. Veiðiljóðið er einhvern þannig, að mann langar allta að fara að syngja með.
Karlakórinn Heimir hafði lengi verið í vafa með þriðja lagið, svo hann mætti með fjögur. Þau voru: Sveinar kátir syngið, Vertu til, Kór munkanna og Lionoru og svo í restina O, sole mio. Halla Margrét söng með þeim “Kórinn” og Ari Sole-mio-ið.
KAG mætti næst með: Capri-Katarina, Þó þú langförull legðir og Í grænum mó. Okkar konsertpíanisti, Aladár Rácz, lék undir í Katarínunni en Valmar sjálfur í Í grænum mó, sem þýðir í raun að það var sungið stjórnlaust. Eina lagið á öllu Heklumótinu.
Gestgjafinn Hreimur var svo lokakór fyrir hlé. Lögin voru: Undir Svörtudröngum, Íslensk mynd og Heimsvon. Ásgeir Böðvarsson söng einsöng í því glæsilega lagi Íslensk mynd. Hljómsveit bættist svo í hópinn í því síðasta; gítar, bassi og harmonikka.

Næst var tekið hlé, meðan sviðinu var breytt og pallar lagaðir fyrir “Stóra kórinn”. Eftir svona fimmtán mínútur var allt klárt og hægt var að hefja söng að nýju. Hátt í 250 söngmenn voru nú tilbúnir að þenja raddböndin saman í nokkrum stórverkum.
Fyrsta sameiginlega lagið var Heklusöngur og var það stjórnandi Eyfirðinga,  Petra Björk Pálsdóttir sem hélt í taumana. Hljómmikið og virðulegt lag, sem gott er fyrir hvern kórmann að fá taka þátt í. Þarna svífur gamli ungmennafélags-andinn líka yfir vötnunum og maður fyllist einhvers konar óútskýranlegu stolti. Skrýmslið var að vakna.                  
Þá kom Valmar Väljaots, stjórnandi KAG. Hann gyrti sig í brók á skemmtilegan hátt og “Förumannaflokkar þeysa”, þetta stóra, gamla verk lifnaði hressilega við undir hans stjórn. Lög Karls O. Runólfssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar eru gjarna erfið en að sama skapi stórbrotin og glæsileg. Nafn lagsins gæti líka vísað til ferðalaga kóranna á Heklumótið á Húsavík.
Þriðja lagið var Landsýn. Stefán R.Gíslason stjórnandi Heimis var röggsamur að vanda og stýrði þessu norska fleyi örugglega í höfn. Baldvin Kr. Baldvinsson söng sólókaflann og gerði það vel. Miklar styrkbreytingar gerðu lagið enn áhrifameira og fylgdu boði stjórnandans í hvívetna. Meira að segja brostu við og við.
Þá var komið að lagi Guðmundar Óla stjórnanda Dalvíkinga, Þú, sem eldinn átt í hjarta og stýrði hann að sjálfsögðu sínu nýja lagi sjálfur. Mætti á pall með eldgamla ljóðabók, opnaði hana og bara byrjaði. Lagið og útsetningin öll í höfðinu. Nokkuð mikill texti, en skilaði sér ótrúlega. Manni finnst núna vera komið enn eitt stórvirkið í viðbót fyrir íslenska karlakóra. Afar gaman að syngja þetta lag og flestir sjálfsagt enn með það á heilanum! Eftir flutninginn fékk höfundurinn blómvönd og mikið klapp gesta.
Lokalag mótsins var svo Lofsöngurinn. Karlakórinn Ernir lagði til stjórnandann, Margréti Gunnarsdóttur. Allir stóðu upp meðan þjóðsöngurinn var fluttur. Alltaf jafn fallegt og hátíðlegt þetta lag. Yndislegur lokapunktur á frábærri söngskemmtun.

Eftir tónleikana bauð Norðurþing til móttöku í Safnahúsinu. Veitt var ýmislegt drykkjarkyns og snittur með. Bergur Elías, sveitarstjóri, bauð okkur öll velkomin til Húsavíkur, óskaði okkur til hamingju með frábært og skemmtilegt mót, sagði okkur frá svæðinu í stuttu máli og skálaði í restina. Baldur formaður Hreims þakkaði stuðninginn og minnti á, að ekkert sveitarfélag er almennilega búið, nema þar sé karlakór.
Stuttu síðar kvaddi Snorri Guðvarðar, formaður KAG og Sambands Íslenskra Karlakóra sér hljóðs. Þakkaði fyrir móttökurnar og vildi að menn þökkuðu allir fyrir sig með því að sameinast í þekktum standard: Þú álfu vorrar yngsta land. Var það gert af miklum krafti og hljómaði afar vel í þessu skemmtilega húsi.

Kvöldskemmtun var haldin í Íþróttahöllinni um kvöldið. Upp úr átta fóru menn að koma sér fyrir og skreppa á barinn. Þar var náttúrlega allt fljótandi í Heklu-bjór, sérmerktum fyrir þetta tækifæri. Sigurður Aðalgeirsson fór í grófum dráttum yfir tilurð og lífshlaup Heklu og kynnti síðan veislustjórann Friðrik Steingrímsson til leiks. Sá hafði nóg af vísum í pokahorninu til að dreifa eftir þörfum. Bautinn sá um matinn og er það mál manna að sjaldan hafi veisluborð þeirra verið jafn vel heppnað og í þetta skipti.
Þónokkrir kvöddu sér hljóðs og ýmist sögðu brandara eða annað sem lá þeim á hjarta. Snorri Guð, varaformaður Heklu, fékk menn til að skála og klappa fyrir Hreim og stjórnendum og endaði á að láta menn kyssa konur sínar. Viðraði síðan hugmynd sína og von um að næsta Heklumót yrði haldið á Ísafirði. Gríðarleg fagnaðarlæti fylgdu í kjölfarið.
Baldur kom upp og þakkaði mönnum komuna. Fannst mótið hafa gengið afar vel, sem það svo sannarlega gerði. Að lokum sagðist hann hlakka til að hitta menn eftir fjögur ár á Heklumóti á Ísafirði. Held að Ernirnir séu strax farnir að skipuleggja. Næsta Heklu-nefnd fær það hlutverk að vinna í þessu.
Ernir, Drífandi og Karlakór Eyjafjarðar lögðu til skemmtiatriði. Voru þau afar ólík hvert öðru. Eyfirðingar tefldu fram George Hollanders og Þór Sigurðarsyni með vindlurk og bassarödd, Ernirnir ráku stjórnandann í beinni og sungu svo fjálglega um rassa og brjóst og Drífandamenn sendu ljóðskáld og sögumenn á svið. Ekki held ég að á neinn sé hallað, þó ég segi að Ernir hafi slegið í gegn með sínum fíflalátum.
Þegar veislu lauk, tók hljómsveit Kidda Halldórs við og fyllti gólfið í hvelli. Dansað var til tvö og eftir það fóru menn hver til síns heima, syngjandi sælir. Frábæru Heklumóti, hinu sautjánda, var þar með lokið…

Snorri Guð.