Fréttir

500 þúsund krónur fyrir Mæðrastyrksnefnd

Styrktartónleikarnir fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar tókust afar vel.  Húsfyllir var í Akureyrarkirkju og mikil og hátíðleg stemmning. Kórarnir þrír; Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir og Söngfélagið Sálubót, fengu afar góðar móttökur tónleikagesta.

Jólatónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd

KAG verður í samstarfi við Kvennakór Akureyrar á jólatónleikum í Akureyrarkirkju næstkomandi sunnudag, 30. nóvember, kl. 16. Um er að ræða árlega styrktartónleika Kvennakórsins fyrir Mæðrastyrksnefnd. Fram koma: Kvennakór Akureyrar, Karlakór Akureyrar-Geysir, og Söngfélagið Sálubót. Stjórnendur og undirleikarar: Jaan Alavere, Valmar Valjaots og Tarvo Nómm.  Miðaverð er 1.500 krónur, en frítt fyrir 12 ára og yngri. Allur ágóði af tónleikunum rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefndar.

Handknattleiksdeild KAG

Karlakór Akureyrar-Geysir fékk það óvenjulega og skemmtilega verkefni í gær að hita upp fyrir heimaleik Akureyrar og Hauka í N1 deildinni í handbolta. Meiningin var að blása handboltahetjunum og áhorfendum baráttu í brjóst með kröftugum karlakórssöng! Vissulega sungum við karlarnir hraustlega en það dugði hinsvegar ekki til sigurs gegn Haukum, því okkar menn steinlágu fyrir hafnfirsku hetjunum. Við KAG félagar erum þó sannfærðir um að söngurinn hjálpaði upp á stemmninguna, engin spurning!  Sjá myndir frá upphituninni hér!

Frábært Heklumót á Húsavík

Heklumót hið sautjánda var haldið á Húsavík laugardaginn 1. nóvember. Þátt tóku átta kórar, víðs vegar að af sambandssvæðinu; Ernir, Bólhlíðingar, Heimismenn, Dalvíkingar, Eyfirðingar, KAG, Hreimur og Drífandi. Kórarnir mættu hver á fætur öðrum og byrjuðu á að fá sér kaffi og hitta aðra kórmenn. Sameiginleg æfing hófst svo upp úr tíu. Valmar hitaði menn upp og svo tók hver stjórnandinn við af öðrum.