Skýrsla formanns 2013

Ég hef þetta yfirlit yfir starfsár Karlakórs Akureyrar-Geysis á aðalfundi kórsins, mánudaginn 7. maí, 2012. Talsverðar breytingar urðu þar á stjórn, fjórir nýir menn tóku þar sæti, þar af nýr formaður. Snorri Guðvarðsson, fráfarandi formaður, flutti skýrslu stjórnar og fór yfir starfsárið sem var hans síðasta sem formaður, en því embætti gengdi hann í átta ár. Þá kynnti Gunnar Páll Ólason reikninga starfsársins. Á fundinum urðu líflegar umræður, undir liðnum önnur mál og margir tóku til máls. Rætt var um mætingar, æfingatíma, árgjöld, tónleikahald og fleira.

Fyrsta verkefni kórsins eftir aðalfund var söngur í Minjasafninu á Akureyri, sunnudaginn 3. júní, á 50 ára afmælishátíð safnsins. Þar söng tvöfaldur kvarett bæði úti í garði Minjasafnsins og í Minjasafnskirkjunni.

Valmar Väljaots lét af störfum sem söngstjóri kórsins síðastliðið vor, en hann hafði gengt því starfi í fimm ár. Í hans stað var ráðinn Hjörleifur Örn Jónsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Akureyri. Óhætt er að segja að þessi ráðning Hjörleifs hafi gefist sérlega vel og mikill fengur að hafa fengið hann til starfa við kórinn. Samstarfið við hann hefur verið mjög gott og vonandi fáum við að njóta krafta hans lengi enn.

Í kjölfar ráðningar Hjörleifs var Risto Laur svo ráðinn undirleikari kórsins.

Eftir nokkur sumarverkefni, eins og söng á sjómannadag og á dönskum degi í innbænum, hófst vetrarstarfið með fyrstu æfingu 11. september. Þar var feiki góð mæting, um 40 manns, og mikill hugur í mönnum.

Sú breyting var gerð á æfingum kórsins að nú eru æfingar eitt kvöld í viku, í stað tveggja áður. Æfingarnar voru lengdar í staðinn og tvo laugardaga í vetur fór kórinn í æfingabúðir frá morgni til kvölds.

13. september, söng KAG-kvartettinn við afhendingu Sjónlistaverðlaunanna í Hofi. Sannarlega verðugir fulltrúar kórsins þar á ferð.

13. nóvember var haldinn almennur kórfundur hérna í Lóni, þar sem menn ræddu málin og fóru í sameiningu yfir vetrarstarfið.

En allt starf okkar kórfélaga síðastliðið haust mótaðist af undirbúningi fyrir stórtónleika 17. nóvember, í tilefni af 90 ára sögu kórsins, sem miðast við stofnun karlakórsins Geysis árið 1922. Þetta var stórt verkefni, það stærsta sem kórinn hefur tekist á við á síðari árum. Vinnuhópur var skipaður í kringum verkefnið, sem hélt utan um það allt til enda. Strax var ákveðið að fá sem gestasöngvara þá Kristján Jóhannsson og Örn Viðar Birgisson og tónleikarnir voru haldnir í menningarhúsinu Hofi. Dagskrá tónleikanna var unnin í kringum þessa 90 ára sögu, Ívar Helgason og Gísli Sigurgeirsson, voru ráðnir í þá dagskrárgerð, þar sem sagan var rifjuð upp. Hjörleifur Örn og nefndarmenn völdu síðan lög sem Geysir og Karlakór Akureyrar höfðu sungið í gegnum ártugina. Þá kom einnig fram tvöfaldur kvartett og einsöngvarar úr kórnum. Hjörleifur skrifaði svo inn í þetta allt saman fimm manna hljómsveit og úr þessu urðu glæsilegir tónleikar, uppselt var í Hofi og 500 tónleikagestir. Allt þetta verkefni var mikil og góð reynsla fyrir kórinn. Krefjandi verkefni sem menn tókust á við af mikilli samheldni, mætingin á æfingar var feykigóð og mikill metnaður. Og svo góð var mætingin að keyptur var viðbótar pallur til að rúma alla kallana!

Eftir þetta stóra verkefni tóku við jólasöngvar í desember. Fyrst söng kórinn í upphafi aðventu 1. desember, fyrir íbúa á dvalarheimilum aldraða á Lögmannshlíð og Hlíð. Eftir sönginn tók svo við árlegt hangikjötsvöld kórsins í Lóni. Söngur á Glerártorgi er jafnan fastur liður í jólahaldi kórsins og sá KAG kvartettinn um þann hluta í ár. Kvartettinn kom tvisvar fram þar og gekk vel. Um miðjan desember söng kórinn jólalög fyrir verkalýðsfélögin á Akureyri í Alþýðuhúsinu við Skipagötu og á þorláksmessu fórum við á Sjúkrahúsið á Akureyri og sungum fyrir sjúklinga þar. Þá buðum við, í samstarfi við VÍS, fötluðum skjólstæðingum búsetudeildar Akureyrarbæjar á jólatónleika í Brekkuskóla. Og eins og mörg undanfarin ár enduðum við árið með þægilegri stund hérna í Lóni á gamlársdag og helst sá siður vonandi um ókomin ár. Engir eiginlegir jólatónleikar voru haldnir að þessu sinn og er það miður. Vænti ég þess að á því verði ráðin bót næsta vetur.

Starfið eftir áramót hófst með almennum kórfundi, eins og þeim sem haldinn var í nóvember. Þar stilltu menn saman strengi og fóru yfir starfið framundan. Þar var meðal annars tekin sú ákvörðun að fresta fyrirhugaðri ferð kórsins til Skotlands þar til sumarið 2014. Þannig gæfist betri tími til undirbúnings og ferða- og fjáröflunarnefndin sem skipuð var, og kórinn allur, hefðu þá meiri tíma til undirbúnings og fjáröflunar fyrir ferðina.

1. febrúar sungu kórfélagar á þorrablóti fyrir heimilisfólkið á dvalarheimilinu Hlíð og 7. febrúar var sungið fyrir Aflið í Akureyrarkirkju. 

Helgina 22.-24. febrúar var svo tekið á því í orðsins fyllstu merkingu. Þá tóku menn sig til og máluðu Lón að innan, hátt og lágt. Þarna kom enn einu sinni í ljós samtakamáttur kórfélaga, sem gengu skipulega til verks undir dyggri stjórn húsnefndar. Og breytingin er mikil og allt annað að starfa í Lóni eftir þessa miklu andlitslyftingu. Næsta málingartörn verður svo utanhúss og þyrfti að ráðast í það sem fyrst.

Það var ekki síður tekið á því á árshátíðinni 9. mars. Fyrsti bassi hafði umsjón með árshátíðinni að þessu sinni og stóð sig vel. Mætingin var fín og menn skemmtu sér hið besta.

22. mars tókum við þátt í Mottuboði klúbbs matreiðslumanna í Hofi í annað sinn. Þar söfnuðust samtals um 2 milljónir króna, sem renna beint til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Vortónleikar kórsins voru svo haldnir í Hofi 21. apríl, að þessu sinni var sungið í Hömrum, minni samkomusal Hofs. Þarna fékk kórinn mjög góðar móttökur og ekki annað að heyra en tónleikagestir hafi skemmt sér hið besta. 190 manns mættu á tónleikana og var uppselt í Hömrum. Þarna var einblínt var á tímabilið 1930-1950, flutt var rammíslensk tónlist, "Barber Shop" tónlist og norrænn vísnasöngur. KAG-kvartettinn söng nokkur lög og fjórir einsöngvarar kórsins komu fram. Þá kom fram sértakur gestasöngvari; Gísli Rúnar Víðisson. Þarna tókust kórfélgar á við Íslensk rímnadanslög Jóns Leifs, en kórútgáfa verksins er sjaldan flutt í heild sinni. Vortónleikar karlakórsins eru jafnan lokapunktur starfsársins og tókust þeir afar vel af þessu sinni.

Eins og undanfarin ár söng kórinn við messu í Glerárkirkju á uppstigningardag, sem að þessu sinni bar upp á 9. maí. Með þessum messusöng hefur kórinn kvittað fyrir afnot af kirkjunni fyrir vortónleika, en þó við höfum valið Hof að þessu vori sungum við engu að síður í kirkjunni við þessa messu. 

Síðastliðið föstudagskvöld var svo eiginlega rúsínan í pylsuendanum á þessu starfsári. Langt er síðan Keli bóndi í Höfða bauð okkur í heimsókn þetta kvöld. Kvöldið byrjaði reyndar á óvæntu boði Hamborgarafabrikkunnar, sem hefur kallað til nokkra hópa til að prufukeyra staðinn fyrir opnun. En heimsóknin til þeirra bænda í Höfða tókst mjög vel og ég spái því að þetta sé ekki í síðast sinn sem við förum þangað á sauðburði.

En einn viðburður í starfi kórsins þetta vorið er eftir. Þátttaka í tónleikum Karlakórsins Stefnis í Hofi, mánudagskvöldið 3. júní. Þar syngjum við 3-4 lög sem gestakór á þessum tónleikum Stefnismanna. 

Það er óhætt að segja að það starfsár sem nú er á enda hafi verið viðburðaríkt og sérlega metnaðarfullt tónlistarlega séð. Afmælistónleikarnir voru krefjandi og bardaginn við Jón Leifs ekki síður erfiður. En í bæði skiptin kom í ljós að þegar á reynir, stendur hópurinn saman og leysir verkefnin. Og ég held að menn vilji halda metnaðarfulla og krefjandi tónleika. Karlakórahefðin er alltaf til staðar og á að vera til staðar, en það er spennandi að takast á við eitthvað nýtt og endurnýja sig annað slagið. Og við mættum með sterka sveit einsöngvara á báða þessa stærstu tónleika starfsársins.

Samheldnina skorti reyndar þegar fara átti í löngu boðaða söngferð til Þórshafnar og Vopnafjarðar. Við hana þurfti því miður að hætta.

Vandi okkar á þessu starfsári, sérstaklega þó seinni hluta þess, var brottfall úr einstaka röddum. Þetta verðum við að skoða vel næsta vetur. Menn sem byrja að æfa með kórnum verða að halda tímabilið út. Auðvitað kemur ýmsilegt óvænt upp á hjá mönnum, veikindi eða annað sem ekki er hægt að ráða við. Við því er ekkert að gera og auðvitað sýnum við því fullan skilning. En það er ekki ásættanlegt þegar menn hætta á miðju æfingatímabili af því að það er orðið svo mikið að gera á öðrum vígstöðvum. Menn verða að gera það upp við sig þegar þeir byrja að æfa með kórnum, að þeir hafi tíma fyrir kórstarfið. Þetta er hópavinna þar sem stöðugur fjöldi og góð mæting í hverri rödd skiptir máli. Það er mjög erfitt þegar búið er að ákveða verkefnin með sterkan hóp, ef hópurinn brotnar svo upp þegar nálgast tónleika.

Það bættust nýliðar í hópinn í vetur og stóðu sig með miklum sóma. Vonandi verða þeir enn fleiri næsta vetur og fjölgun í kórnum er auðvitað stanslaust verkefni. Og fyrir næsta vetur held ég að við ættum að leggjast á þá félaga okkar sem hafa ekki sungið með í einhvern tíma og drífa þá í gang aftur.

En það er blómlegt starf hjá Karlakór Akureyrar-Geysi. Kórinn á sér sterka sögu, við erum með góðan söngstjóra og góða söngmenn sem eru stoltir af því að koma fram undir merkjum kórsins. Kórinn á félagsheimilið Lón sem er mikið notað og leigt út fyrir ýmisskonar starfsemi, þó við viljum alltaf fá meiri leigu, því húsið er dýrt í rekstri. En það öfunda okkur margir kórar af þessari aðstöðu að þurfa aldrei að vera upp á aðra komnir með húsnæði. 

Að þessu sögðu læt ég þessari yfirferð yfir starfsárið lokið og ég er bjartsýnn fyrir næsta starfsár og framtíð kórsins!

Ágúst Ólafsson, formaður KAG.