Vel heppnað hangikjötskvöld

Snorri og Valmar stýra fjöldasöng
Snorri og Valmar stýra fjöldasöng
Hin árlega 1. des. samkoma KAG var einstaklega vel heppnuð að þessu sinni. Skemmtileg söngstund með eldri borgurum, frábært hangikjötskvöld í Lóni, árangursríkt bögglauppboð og heldur betur óvænt uppákoma í lokin!    

Kvöldið hófst með heimsókn KAG til heimilisfólksins á Dvalarheimilinu Hlíð. Þar sungum við jólalög í bland við hefðbundin sönglög og enduðum svo með fjöldasöng. Þar var tekið hressilega undir í fjörugum jólalögum og sérsaklega gaman að geta glatt þessa ágætu eldri borgara með söng.

Að þessu loknu mættum við ásamt konum okkar og öðrum gestum í Lón þar sem okkar beið hangikjöt með öllu tilheyrandi. Þar tóku karlar og konur vel til matar síns, enda hangikjötið afbragðs gott! Þar var líka sungið og spjallað, séra Magnús G. Gunnarsson flutti stutta hugvekju, jólasveinn kíkti í heimsókn og flutt var fallegt jólaljóð. Snorri og Valmar sáu um að stýra fjöldasöng, auk þess sem KAG tróð upp og tók lagið...að sjálfsögðu! Snorri og Alli stýrðu svo bögglauppboði af miklum móð og leikni.  

Öllum að óvörum (eða flestum allavega) gekk svo annar prestur, séra Arnaldur Bárðarson, í salinn í fullum skrúða! Hans þáttur í samkomunni skýrðist fljótlega þegar í ljós kom þau Siggi Kristjáns. í öðrum bassa og Hólmfríður, höfðu ákveðið að nota þetta kvöld til að gifta sig!! Ótrúlega skemmtileg stund og sannarlega óvænt, enda vissi þetta nánst enginn nema presturinn og brúðhjónin sjálf!

Sjá myndir hér