"Hæ. Tröllum" 2010

Laugardaginn 20. mars hélt Karlakór Akureyrar-Geysir sitt árvissa "Hæ. Tröllum..." mót í Glerárkirkju. Þátttakendur að þessu sinni auk okkar voru Karlakór Bólstaðarhlíðar, Karlakór Eyjafjarðar og Karlakórinn Hreimur.

Mættu allir kórarnir fyrir klukkan tíu á tónleikastað til að renna yfir sameiginlegu lögin. Þeir makar sem mættu voru sendir í óvissuferð um bæinn og komu við í nýja menningarhúsinu Hofi og Minjasafninu á Akureyri. Undir hádegi var öllum boðið upp á súpu og brauð í kirkjunni, en síðan var laus tími til þrjú. Þá var aftur mætt á tónleikastað. Strax klukkan þrjú mættu fyrstu gestirnir, þannig að greinilegt var í hvað stefndi. Húsið fylltist af fólki og kaffikönnurnar í eldhúsinu tæmdust hver af annarri, enda svona kórkarlar miklir kaffidrykkjumenn. Þarna voru þeir hátt í hundrað og fimmtíu samankomnir. Rúmlega þrjú fór formaður KAG inn og bauð gesti velkomna, sagði frá fyrirkomulagi mótsins og röð kóra.


Fyrstir til leiks voru strákarnir í karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps eða "villta vestrið". Þeirra lög voru: Þér landnemar, Í einum grænum, Ég er kominn heim, sem menn þekkja vel úr heimi  dægurlaganna og svo að lokum lagið Vorsól. Í því lagi söng Hjalti Jóhannsson, hár og bjartur tenór, einsöng. Kannski hljóma þeir allir svona vel strákarnir frá Giljum. Stjórnandi kórsins var að venju Sveinn Árnason og píanisti ungur, klár og glæsilegur Elvar Ingi Jóhannesson.

Næstir á svið voru svo "sólstrandagæjarnir" í Karlakór Eyjafjarðar undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur. Þeirra fyrsta lag var Í stofu bónda, þá Spor, lag Petru Bjarkar við texta Árna (öryrkja) Jónssonar, Hryssan mín blá í útsetningu Petru og að lokum Þú, sem eldinn átt í hjarta. Það lag er eftir Guðmund Óla Gunnarsson og var samið fyrir Heklusambandið og frumflutt á Heklumóti á Húsavík árið 2008. Undirleik fyrir Eyfirðinga annaðist Aladár Rácz.

Þá var komið að þingeyska karlakórnum Hreim og söng hann fjögur lög eins og aðrir. Fyrst Ísland, Ísland ég vil syngja, þá Sprettur og síðan Violetta, en þar spiluðu Þórarinn Illuga, Erlingur Bergvins og Sigurður formaður Friðriksson undir á bassa, gítar og harmonikku. Að lokum kom svo perlan Á leið til Mandalay og gamalkunnur einsöngvari, Baldvin Baldvinsson, rölti þá leið með kórnum. Aladár Rácz stjórnaði strákunum af röggsemi og Tuuli Rahni lék á flygilinn.

Eftir hlé var komið að karlakór Akureyrar-Geysi. Fyrsta lagið var Ölerindi, eða Nú er ég glaður eins og menn kalla það yfirleitt, þá þýsk fimm laga syrpa í útsetningu Páls Pampichlers, næst Sefur sól hjá ægi og í lokin gamla "barbershop"-lagið While strolling through the park, þar sem menn urðu að blístra og herma eftir básúnu ofan á allt annað. Valmar Väljaots stjórnaði okkur þegar hann var ekki að spila undir og spilaði undir þegar hann var ekki að stjórna okkur, eða þannig...

Eftir þetta var komið að sameiginlegu lögunum. Söfnuðust allir kórarnir saman á pallana og flæddi fjöldinn útaf í allar áttir. Fyrst var flutt einkennislag mótsins: Hæ! Tröllum á meðan við tórum. Valmar (KAG) stjórnaði því og náði vel út úr þessu stóra hljóðfæri. Næst stjórnaði Petra Björk (Eyfirðingur) stórvirkinu Brimlending og breytti örugglega hárgreiðslu nokkurra gesta í salnum. Þá tugtaði Aladár (með Hreim) okkur til í "Þú álfu vorrar" eða Ísland, eins og það heitir. Næst var það Förumannaflokkar þeysa, átakamikið og dynamískt lag sem Valmar okkar stjórnaði. Loks fékk Sveinn Skagfirðingur Árnason, stjórnandi Bólhlíðinga, að taka í taumana, þegar við sungum Hermannakór úr Faust.

Nú var dagskráin búin, en fólkið vildi meira. Stjórnendur fengu afhenta blómvendi og síðan var sungin Þakkarbæn, gamalt hollenskt þjóðlag og að lokum rúllað gegnum Þú komst í hlaðið. Tveir tímar af söngskemmtun liðu hratt en vonandi fengu allir tónleikagestir það, sem þeir vonuðust eftir. Alla vega vorum við verulega glaðir á eftir...

Eftir tónleikana var haldið í félagsheimilið okkar, Lón. Þar beið eftir okkur mikil matarveisla og drykkir af mismunandi styrkleik. Húsfyllir af hressu og ánægðu fólki, sem uppskar laun eftir erfiði dagsins. Ýmis skemmtiatriði runnu í gegn, öryrkjar lögðu til sínar stuðluðu, skrýtnu pælingar um náungann, inn á milli þeirra kveður Gunnar Páll, en hann er í kvæðamannafélaginu, og Bólhlíðingar fluttu hluta úr dagskrá sinni um Björn á Löngumýri. Snorri Guð sá um fjöldasöng og lét menn syngja sama textann við nokkur lög. Þá var líka kaffi og konfekt á boðstólum. Að lokum lék hljómsveitin Einn&sjötíu fyrir dansi þar til Þingeyingar og Húnvetningar blésu til brottfarar. Frábær dagur að kvöldi kominn og flestir búnir að fá nóg.

Karlakór Bólstaðarhlíðar, Karlakór Eyjafjarðar og Karlakórinn Hreimur. Þakka ykkur fyrir þátttökuna í "Hæ. Tröllum" 2010 og sjáumst hressir aftur...  SYNGJANDI SÆLIR !!!