Siðareglur

1.  Við erum í KAG því okkur finnst gaman að syngja í kór. Eða bara einfaldlega gaman að syngja. Það finnst líka hinum félögunum í kórnum.

2.  Mætum á réttum tíma í Lón, og verum tilbúnir klukkan átta. Þá byrjar æfingin. Að koma nokkrum mínútum of seint truflar æfinguna og er oftast óþarfi.

3.  Mætingar hjá okkur þurfa að vera góðar. Koma því ofar í forgangsröðina. Allir græða á því. Berum virðingu fyrir æfingatíma okkar sjálfra og félaganna.

4.  Hjálpum nýliðunum okkar. Munum að hafa þá inni í röddinni á milli reyndra söngmanna og verum vakandi fyrir að aðstoða þá og leiðbeina eftir þörfum.

5.  Ekki finnast maður endalaust þurfa að gera athugasemdir við allt, sem sagt er  og vera fyndinn. Það tefur æfinguna og truflar söngstjórann í sínu starfi.

6.  Hlustum á stjórnandann með athygli, þegar hann bendir okkur á eitthvað eða lagar. Getum rétt upp hönd, ef við þurfum að spyrja hann um eitthvert  atriði.

7.  Þær nótur, sem menn fá, eru þær nótur, sem á að syngja. Alveg sama hvað hefur verið áður. Eilíft þjark um “réttar” nótur er afar hvimleitt og tefjandi.

8.  Spjöllum í pásunni og veltum þá upp hugsanlegum atriðum, sem þarf að ræða. Að öðru leyti takmörkum tal á æfingum. Blaðrið eyðir dýrmætum æfingatíma.

9.  Við eyðum vetrinum í æfingar fyrir tónleika og aðrar uppákomur. Ef  KAG er með auglýsta tónleika, þá eiga menn að mæta !!! Svo einfalt er það nú.

10.  Þegar raddformenn hringja út, eru þeir ekki að athuga, hve margir “ætli” að mæta. Það eiga allir að vera með. Látum þá vita, ef við komumst ekki á æfingu.

11.  Þótt um áhugamannakór sé að ræða er metnaður nauðsynlegur, Hann kemur af sjálfu sér, ef menn leggja sig fram og þá er líka meira gaman.

12.  Áfengi á enga samleið með æfingum né tónleikum og er einfaldlega bannvara. Virðum það!  Allt í lagi að fá sér í tána á eftir ef menn vilja.

13.  Ef menn eru með möppur, þarf  að halda þeim þannig að þeir geti líka fylgst með söngstjóra. Hann er að sjálfsögðu aðal-málið og þarf 100 % áhorf.

14.  Gott skap og jákvæðni eru ómissandi þættir í kringum allt félagsstarf. Við þurfum og eigum að standa þétt saman um að gera kórinn okkar betri!

15.  Verum vakandi fyrir að ná í nýja meðlimi. Tölum vel um KAG  sem og aðra kóra. Það græða allir á því að vera jákvæðir og fyrst og fremst maður sjálfur.