Framkvæmdir í Lóni

Gunnar Páll, Alli og Snorri, ánægðir með breytingarnar!
Gunnar Páll, Alli og Snorri, ánægðir með breytingarnar!

Undanfarið hafa nokkrir laghentir KAG-félagar unnið að miklum endurbótum í „suðurstofunni“ í Lóni og skjalageymslu kórsins. Hent var út gömlu gólfteppi og gólfin lögð fíneríis eikarparketi í staðinn. Þá var allt málað hátt og lágt og nýjar innréttingar keyptar í skjalageymsluna. Skemmst er frá því að segja að munurinn er mikill! 

 

Eftir að hafa farið í gegnum skjöl og pappíra kórsins og komið skikki á nótnasafnið, er meiningin að koma upp á veggi og hillur öllum þeim fjölda gripa sem eru í eigu KAG, gjöfum sem borist hafa í gegnum tíðina, gömlum myndum o.fl.

Kórinn á merkilegt safn allskyns gripa og annarra minja úr sögu KAG, ýmist frá tíð Karlakórsins Geysis, Karlakórs Akureyrar, eða Karlakórs Akureyrar-Geysis.

Þá verður til, á einum stað, safn um sögu þessara kóra sem spannar allt aftur til ársins 1922 og geymir merkilegan hluta af sögu kórastarfs á Akureyri.