Vortónleikar að baki

Jæja, þá er hápunkti vetrarins náð og vortónleikarnir að baki. Föstudaginn 15. var farið í Hrísey, sem sumir kalla nú "Miðbæinn", eftir að Grímsey bættist í púkkið. Þar voru sungnir tónleikar í nýjum fjölnota sal eyjarskeggja í íþróttahúsinu. Gekk það vel og kom um helmingur eyjarskeggja auk nokkurra landkrabba. Kórfélagar skiptust á að kynna lögin og Steini, starfsmaður hússins, kynnti "Lóan er komin" og mæltist það afar vel fyrir, þar sem Steini er þekktur fuglaáhugamaður.
Í hléi bauð KAG gestum upp á konfekt og eftir tónleikana var farið í veitingastaðinn Brekku þar sem boðið var upp á kaffi og fóru sumir aðeins lengra og skoðuðu bjórbirgðir hússins. Síðan var siglt í land í dásamlegu veðri.
Laugardagurinn var bjartur og fagur og hitinn sló í ein 20 stig. Ekki bjuggumst við kórfélagar við að ná mörgum inn á tónleika í svoleiðis veðri, en heldur betur rættist úr því. Tónleikarnir gengu skínandi vel og margir hrósuðu okkur eftir tónleikana. Aukalögin urðu nokkur, en eitt þeirra vakti þó meiri athygli en önnur. Þegar Valmar þakkaði uppklapp í þriðja sinn, sagði hann að sér fyndist að allir Íslendingar ættu að kunna tvö lög. Annað þeirra væri þjóðsöngurinn, en hitt væri "Is it True", Evrovision-lag okkar Íslendinga í ár. Svo bara byrjaði Valmar að spila og við sungum eins og englar: Is it True. Á þessum tímapunkti voru ekki nema 3 tímar í að Jóhanna flytti lagið í Moskvu, þannig að nálægðin var afar spennandi. Gríðar skemmtilegt innslag. Þar með var veturinn formlega búinn hjá okkur, þótt enn væru nokkur verkefni ennþá framundan hjá kórnum.