Skemmtilegur jólamánuður hjá KAG

Sjúkrahússöngurinn góði
Sjúkrahússöngurinn góði
Desembermánuður er jafnan mikill söngmánuður hjá félögum í Karlakór Akureyrar-Geysi. Og eins og hjá flestum einkennist þessi timi af föstum venjum og ómissandi uppákomum.

 

Eftir vel heppnaða jólatónleika í Akureyrarkirkju 10. desember, þar sem kórinn fékk feykigóðar móttökur, sungum við fyrir vini okkar á Öldrunarheimilum Akureyrar. Það hefur kórinn gert á þessum tíma í mörg ár.

Við hófum sönginn á Lögmannshlíð, sungum nokkur lög af tónleikunum, en tókum svo upp "rauðu bókina" og um leið léttari söng. Og þá var tekið undir og allir sungu saman. Þaðan fórum við á Hlíð og ekki voru móttökurnar síðri þar. Sungið með bókum og bókarlaust og mikil stemmning.

Árlegur söngur á Sjúkrahúsinu á Akureyri er ómissandi. Bæði hjá okkur kórfélögum og, að því er alltaf virðist, hjá þeim sem dvelja á Sjúkrahúsinu hverju sinni. Þar förum við á milli hæða og syngjum nokkur jólalög á hverri hæð fyrir sig.

Síðasti liðurinn á dagskrá kórsins í desember er hittingur félaga í Lóni um hádegisbil á gamlársdag. Þar hafa kórfélagar komið saman allt frá því Lón var í byggingu. Stutt stund við spjall og söng, alveg ómissandi endir á viðburðaríku ári!