Öll atriði á dagskránni voru tengd saman með litlum sögum frá Gísla. Ungur nemandi úr Hlíðaskóla las ljóð og afhjúpað var stórt trélistaverk eftir nemendur skólans. Mörg önnur verk eftir þá héngu á veggjum Ketilhússins. Næst var Kristján Árnason, bókmenntafræðingur og afkomandi Matthíasar með erindi. Var það mál manna að hann hefði tekið svona meðal háskólafyrirlestur þetta kvöld. Þá kom Karl Hallgrímsson og flutti eigið lag við ljóðið "Algyði" eftir afmælisbarnið og Orri Harðarson lék undir á gítar. Síðan rak hvert atriðið annað; Þráinn Karlsson las nokkur ljóð, strengjasveit frá tónlistarskólanum kom og lék undir hjá fjórum misungum söngvurum. Fyrstur var Guðbjörn Ólsen, ungur strákur sem söng með okkur í fyrra, Jónína Björt, ung og bráðefnileg og síðan reynsluboltarnir Helena Guðlaug og Michael Jón.
Að lokum leiddi Karlakórinn í þjóðsöngnum "Ó, Guð vors lands" og allir viðstaddir tóku undir. Frábær afmælisveisla að baki og allir héldu glaðir til síns heima....
Menningarsjóður Akureyrarbæjar styrkir starf KAG árið 2023