Kristján Jóhannsson á 90 ára afmælishátíð KAG í Hofi

Glæsilegir afmælistónleikar Karlakórs Akureyrar-Geysis, í tilefni af 90 ára sögu kórsins, verða haldnir í menningarhúsinu Hofi á Akureyri, laugardaginn 17. nóvember, kl. 20.

Karlakórinn Geysir var stofnaður 1922 og Karlakór Akureyrar 1929. Báðir störfuðu kórarnir með miklum myndarbrag í áratugi og náði starfsemi þeirra oft á tíðum langt út fyrir hefðbundið söngstarf og setti mikinn svip á bæjarlífið á Akureyri. Þegar komið var fram á níunda áratuginn var af ýmsum ástæðum farið að ræða sameiningu kóranna og í október 1990 verður til skilgetið afkvæmi þessara tveggja gömlu merkiskóra; Karlakór Akureyrar-Geysir.


17. nóvember verður þessi 90 ára saga sögð í tónum og tali í Hofi. Flutt lög frá upphafstíma kóranna tveggja og rakið það mikla tónlistarstarf sem þeim tengist fram til dagsins í dag. Lög og söngtextar hafa verið samin sérstaklega fyrir kórana og mun hluti þeirra hljóma á tónleikunum. Þá tengjast sögu kóranna ýmsir sönghópar eins og Smárakvartettinn og Geysiskvartettinn og söngperlur hafa varðveist á upptökum sem fá að hljóma þetta kvöld.

Á afmælistónleikunum syngur stórtenórinn og Akureyringurinn Kristján Jóhannsson, en söngur hans er hluti af þessari merku tónlistarsögu. Með honum syngur svo frændi hans, tenórinn Örn Viðar Birgisson. Auðvitað syngur svo afmælisbarnið sjálft; Karlakór Akureyrar-Geysir, einsöngvarar og kvartett. Tónlistarstjóri þessarar miklu sögu- og söngveislu verður Hjörleifur Örn Jónsson, stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis.