Kórsöngurinn í Hofi og sagan af hjálminum góða!

Flottir eins og alltaf
Flottir eins og alltaf
       Laugardaginn 23. október var mikið um að vera í menningarhúsinu Hofi. Samtals 26 kórar af starfssvæði Eyþings komu þar fram, hver á eftir öðrum, og fluttu sína dagskrá. KAG var þar að sjálfsögðu og var mættur snemma til æfinga á sameiginlegu lagi, sem var reyndar ekki á dagskrá fyrr en í lok dagskrárinnar.         Við vorum annar kór á svið, sem sagt frá 10:20 til 10:40. Lögin okkar í þetta skipti voru: Akureyri, Ölerindi, While strolling through the park, Sigling inn Eyjafjörð, Í grænum mó og Stealaway. Að því loknu fór formaðurinn í púlt og sagði frá söng kórsins í Hofi þann 15. janúar 2008. Það var fyrsti söngur í húsinu og var sendur út beint í Kastljósi sjónvarpsins rétt fyrir átta það kvöld.

       Þá var húsið ekki annað en köld steypa, hráslagalegt og í raun bara fokhelt. Við stóðum í röðum þar sem núna eru bekkir 4 til 7 og snerum í átt að senunni. Hver maður gat þá staðið á þeim steyptu undirstöðum, sem komnar voru fyrir sætin. Allir fengu gula öryggishjálma því þannig voru reglurnar í húsinu á byggingatímanum. Svo var bara beðið eftir merki frá sjónvarpinu um að byrja. Valmar gerði smá tilraunir með hversu lengi hljóðið lifði á meðan við biðum.  Hélt hann jafnvel að það myndi lifa inn í útsendinguna, þótt enn væru nokkrar mínútur til stefnu. Að endingu kom merkið og við sungum eins og englar, eða eins og áhöfn á olíuborpalli; allir með hjálma og í úlpum.

       Eftir útsendinguna fórum við allir út aftur og skiluðum hjálmunum. Allir nema Snorri formaður. Hann tilkynnti vaktmanni að hann ætlaði að stela þessum hjálmi og var það í lagi. Á næstu æfingu skrifuðu allir, sem voru með í söngnum í Hofi þetta kvöld, nafnið sitt á þennan gula hjálm, hann síðan merktur "Fyrsta söng í Hofi, 15. janúar 2008" og settur í geymslu í félagsheimilinu okkar. Skyldi hann síðan afhentur þegar húsið væri komið í gagnið.

       Nú er sem sagt menningarhúsið Hof farið að þjóna okkur norðlendingum og tími kominn á að afhenda gripinn gula. Kallaði Snorri upp fulltrúa Menningarfélagsins Hofs, Freyju Dögg Frímannsdóttur, sagði söguna af hjálminum og setti hann á Freyju. Að vísu hafði Valmar fengið að prófa hann í síðustu tveimur lögunum á prógramminu okkar, en hann var náttúrlega líka fyrsti stjórnandinn til að vinna í þessum stóra, stóra Mackintosh-bauk. Freyja þakkaði okkur gjöfina, fyrir hönd félagsins og verður hjálmurinn varðveittur í húsinu, enda sögulegur og á þar heima!