KAG á smyglaraslóðum

Karlakór Akureyrar - Geysir lagði af stað á föstudagsmorgun kl. níu í nokkuð langa og vel heppnaða söngferð. Byrjað á kaffistoppi í Seli í Mývatnssveit og næst stoppað á Egilsstöðum. Þar fengum við aldeilis veislu í N1 sjoppunni, komum við í "Mjólkurbúðinni" og fórum í viðtal í svæðisútvarpinu. Sungum þar fyrir austfirðinga "Þú álfu vorrar". 
Eftir það var haldið áfram niður á firði og ekki stoppað fyrr en í Kongó. Þar var kaffi og ís. Fallegt veður alla leið og átti reyndar bara eftir að batna. Síðasti hluti leiðarinnar var 100 km og eftir þá vorum við komnir á fyrirheitna staðinn, Höfn í Hornafirði. Karlakórinn Jökull tók vel á móti okkur og Heimir formaður bauð upp á súpu og brauð á hótel Höfn. Tónleikarnir voru svo í kirkjunni og var hún "mátuð" strax eftir næringarnám. Jöklarnir sungu með okkur síðustu þrjú lögin á prógramminu. Ánægðir með tónleikana tókum við stuttan stans á næsta pöbb og einn bjór var svona viðmiðið. Morguninn eftir fóru Jöklarnir með okkur í óvissuferð. Fyrst var bærinn skoðaður í rútu, síðan fórum við með lóðsinum út í ós og fengum mikinn fyrirlestur um þessa þröngu og hættulegu skipaleið, skipaskaða og skrýtna karla frá fyrri tíð. Þá var farið á Jöklasafnið og dvalið þar í hálftíma. Mjög skemmtilegt innslag. Að lokum var farið í hlaðborð á hótelinu og síðan lagt í hann aftur til Egilsstaða.
Sáum enga grunsamlega menn á ferðinni á milli Hafnar og Kongó.
Djúpivogur var sem sagt aftur heimsóttur í bakaleiðinni og ísinn skoðaður aðeins betur. Svo haldið bara sem leið lá til Egilsstaða og komið þangað klukkan sex. Þar tóku hressir strákar í Karlakórnum Drífanda á móti okkur, buðu upp á kaffi og kleinur og tóku svo með okkur sameiginlega æfingu. Í raun voru þetta þeirra vortónleikar. Við sungum á eftir þeim 6 lög og svo sungu kórarnir saman fjögur lög í restina. Eftir tónleikana (og nokkur aukalög) sögðu nokkrir gestir að aldrei hefðu þeir verið á skemmtilegri tónleikum þar... Eftir þetta bauð Drífandi til veislu og var borðað, drukkið, sungið og fíflast fram á nótt. Þoka var síðan alla leiðina heim og "Tæknistoppin" líklega sjö. Meðan síðasta tæknistoppið stóð yfir, fundust tennur í gangi rútunnar, og þegar félagarnir skiluðu sér léttari inn aftur, urðu þeir að brosa sínu breiðasta svo hægt væri að finna eigandann... Rútan renndi sér svo upp að Lóni í morgunsárið. Sigurður Backman og Eggert Sigurjóns voru ökumenn í ferðinni og eru þeir mun sterkari í handleggjum eftir stríðið við stýrið í þessu ógleymanlega ferðalagi. Merkilegt hvað einn lítill nippill getur haft mikið að segja... Takk allir félagar fyrir samveruna í þessari frábæru ferð...  
KAG - syngjandi sælir

                                                                  Snorri Guð, formaður