Hafnarfjarðardæturnar kusu að sjá Júróvision fyrir norðan

Fríður flokkur Öldutúnskvenna.
Fríður flokkur Öldutúnskvenna.
Kosningahelgi - Júróvisiónhelgi - tónleikahelgi. 28. - 30. maí. Allt er þá þrennt er. Þessa einu sönnu kosningahelgi, nú eða Júróvisiónhelgi valdi Kvennakór Öldutúns sér til að koma í heimsókn til okkar.  Ekki á hverjum degi sem að kvennakórar þvælast landshluta á milli til að hitta okkur kallana í KAG. Jæja, stelpurnar mættu í bæinn á föstudagskvöldi og hentu sér nánast beint á Hótel KEA. Snorri Guð mætti nú samt á stéttina svona rétt til að sjá hvernig þær hefðu það. Hitti meðal annars Brynhildi Auðbjargardóttur, hinn eldhressa stjórnanda kórsins.

Morguninn eftir buðum við þeim í siglingu með Húna út á poll. Kristján frá Gilhaga var þar með nikkuna og formaðurinn með gítarinn. Tókum á móti þeim með söng um borð. Mikið var síðan sungið af báðum kórum úti á polli og þegar færi gafst, sagði Steini Pé okkur ýmislegt merkilegt bæði um skipið og bæinn okkar. Kaffi og kleinur voru síðan niðri í matsal. Eftir siglinguna held ég að skvísurnar hafi skellt sér hressilega í búðirnar í bænum... Eftir hádegi var síðan sameiginleg æfing hjá okkur í Glerárkirkju. Valmar var að spila í messu í Mývatnssveit og mætti frekar seint. Þurfti svo að skreppa inn í Eymundsson til að spila með Hvanndalsbræðrum í svona hálftíma, stuttu fyrir tónleika.

KAG opnaði tónleikana og bauð Reykjavíkurdæturnar velkomnar með lögunum: Ölerindi, Í grænum mó og Steal Away. Kannski smá óskhyggja að baki þessu lagavali, en ekki meira um það... Þá tók við prógram Kvennakórs Öldutúns, sem innihélt kirkjulega tónlist, negrasálma og skandinavísk lög. Deep, River, Go Down Moses og Elia Rock voru þarna, Gloria tibi, Til þín Drottinn eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Pater Noster og fleiri kirkjuleg lög. Såg du noko te kerringa mi, Kalliolle og Kristallen den fina voru í síðari hluta tónleikanna og nokkur fleiri lög frá norðurlöndunum. Síðast kom gamla perlan Vem kan segla. 

Eftir frábært prógram buðu stelpurnar okkur á pallana til sín og saman sungum við Vel er mætt og lagið Dómar heimsins. Skemmtilegir tónleikar að baki. Ekki var um neina sameiginlega veislu að ræða um kvöldið, enda allir fastir í sínum Júróvisión- eða kosningakvöldum. 

Takk fyrir að koma stelpur og vonandi eigum við eftir að sjást aftur!!!