Fórstu í rauða hliðið?

Karlakór Akureyrar - Geysir og Drengjakór Glerárkirkju sungu sundur og saman í Flugsafni Íslands að kvöldi fimmtudagsins 30. apríl. Hétu tónleikarnir "Litli og Stóri læra að fljúga" Allir gestir urðu að fara annað hvort í gegn um græna eða rauða hliðið. Tveir lögreglumenn gættu hliðanna og sáu til þess að allir gerðu rétt. Græna hliðið var fyrir alla velsyngjandi en það rauða fyrir falska og laglausa.
Eftir að inn var komið gat fólk skoðað sig um þar til tónleikarnir byrjuðu. Sungu báðir kórar nokkur lög og síðan var tekið hlé. Léttar veitingar voru á staðnum og gátu menn nýtt sér það þegar hentaði. Eftir hlé sagði Gestur Einar, safnvörður frá þessu stóra og skemmtilega safni og að því loknu voru dregnir út nokkrir flugvinningar. Héldu kórarnir síðan áfram þar sem frá var horfið. Var gaman að fylgjast með strákunum, því margt gerist í kórum, ekkert síður drengja en karla. Einn félaginn týndi til dæmis möppunni sinni einhvers staðar í safninu, og er hún þar enn held ég.
Þegar leið að lokum, söng drengjakórinn gömlu, góðu Guttavísurnar og þegar þeir voru búnir, breytti Valmar stjórnandi um tóntegund í undirspilinu og KAG tók við laginu og söng "Fyrst ég annars hjarta hræri". Sama lag - annar texti. Í lokin sungu svo kórarnir saman lagið: Takk. Skemmtileg kvöldstund í frábæru umhverfi. Var ákveðið að endurtaka samsönginn svona einu sinni á önn og alltaf á nýjum stað.