Norðaustan þrír!

KAG um borð í Birni lóðs, í Hornafjarðarheimsókn vorið 2009
KAG um borð í Birni lóðs, í Hornafjarðarheimsókn vorið 2009

Karlakór Akureyrar-Geysir, Karlakórinn Drífandi og Karlakórinn Jökull efna til kóramóts á Vopnafirði og Egilsstöðum, föstudaginn 23. og laugardaginn 24. apríl. Undanfarin ár hafa þessir þrír vinakórar heimsótt hver annan landshorna á milli. Síðastliðið vor kom upp sú hugmynd að kórarnir tækju slaginn saman, hittust á “miðri leið” og héldu stóra tónleika.

Ákveðið var að byrja á menningarstaðnum Vopnafirði, þar sem bæði er fallegt og gaman að syngja. Þaðan lægi leiðin til Egilsstaða, þar sem menningin blómstrar ekki síður. Þar yrði leikurinn endurtekinn fyrir söngelska Héraðsbúa og aðra íbúa Austurlands.

Karlakór Akureyrar-Geysir rekur sögu sína allt til ársins 1922 þegar Geysir var stofnaður og karlakór Akureyrar skömmu síðar (1929). Sameining þessara gömlu kóra var svo árið 1990. KAG er mikið fyrir að hitta aðra kóra. Stjórnandi kórsins er “Hvanndalsbróðirinn” Valmar Väljaots og hann er ofvirkur.

Karlakórinn Drífandi er útvörður Heklu í austri, en Hekla er samband norðlenskra karlakóra og nær einnig allt vestur á firði. Kórinn fær sína félaga víða að af Héraði og jafnvel alla leið frá Vopnafirði. Stjórnandi kórsins er skörungurinn Drífa Sigurðardóttir og frá henni kemur líka nafn kórsins.

Karlakórinn Jökull kemur frá Höfn í Hornafirði og tilheyrir Kötlu, sambandi sunnlenskra kóra. Þar sem allar vegalengdir sem tengjast Reykjavík eru langar, er alveg eins hægt að snúa sér í hina áttina og rækta vinskapinn við aðra dreifbýlisbúa. Stjórnandi Jökuls er hinn eldhressi Jóhann Morávek.

Að þessu sinni er hver kór með sitt prógram og verður spennandi að heyra hvað þeir bjóða upp á. Síðast á dagskránni syngja allir kórarnir saman nokkur stórvirki úr sönghefð íslenskra karlakóra og verður gaman að heyra yfir 100 manna sameinaðan kór flytja lög eins og Brimlending, Dagný og Þú komst í hlaðið.

Tónleikarnir “NORÐAUSTAN ÞRÍR” verða í Miklagarði á Vopnafirði föstudaginn 23. apríl klukkan 20:30 og í Egilsstaðakirkju laugardaginn 24. apríl klukkan 16:30. Aðgangseyrir er aðeins kr. 2.000.