"Minn eða þinn sjóhattur?"

Karlakór Akureyrar-Geysir, ásamt Bogomil Font og hljómsveit, sameinast á tónleikum í Hamraborg í Menningarhúsinu Hofi á Akueryri, föstudaginn 5. júní, kl. 20:00. Sérstakur gestur er Óskar Pétursson.

Tónleikarnir eru tileinkaðir sjómönnum og sjómennsku og því haldnir helgina sem ber upp á sjómannadaginn. Þessir tónleikar eru ólíkir öllu því sem KAG hefur hingað til gert og þarna feta kórfélagar alveg nýjar slóðir. Söngskráin er afar óvenjuleg fyrir karlakór; létt, þung, glettin, ljúf, rokkuð, en umfram allt ákaflega skemmtileg.

Kórinn flytur karlakórslög í nýjum búningi og popp og rokk í karlakórsbúningi. Syngur á íslensku, ensku, sænsku. Lög með Bogomil Font, Bubba Morthens, Rod Stewart, Hauki Mortens, Ólafi Þórarinssyni. Svo koma við sögu Davíð Stefánsson, Páll Ísólfsson, Áskell Jónsson, Sigfús Halldórsson og fleiri.

Hjörleifur Örn Jónsson er stjórnandi KAG. Hann hefur útsett flest laganna fyrir kórinn á þessum tónleikum. Bogomil Font mætir í Hof í sínu besta formi og hljómsveitin hans er skipuð fanta góðum tónlistarmönnum. Við vitum ekki hvort Óskar Pétursson hefur verið til sjós, en hann syngur eins og engill. 

Saman er þetta stórskemmtileg blanda, sjómannaprógramm og KAG með sjóhatt!