Þrír karlakórar, Eyjafjörður út og fram!

Frá mótinu í Glerárkirkju 2010
Frá mótinu í Glerárkirkju 2010

Það verður mikið um dýrðir í Glerárkirkju, laugardaginn 24. mars, þegar þrír norðlenskir karlakórar sameinast á söngmótinu “Hæ! Tröllum”. Karlakór Akureyrar-Geysir hefur staðið fyrir þessu móti nokkur undanafarin ár og hafa margir kórar tekið þátt. 

Nafnið "Hæ! Tröllum" er fengið úr gömlu þekktu sænsku lagi, sem flestir karlakórar hafa sungið. Að þessu sinni verða þátttakendur mótsins; Karlakór Eyjafjarðar og Karlakór Siglufjarðar auk KAG, gestgjafanna sjálfra. Má því segja, að nú heyrum við í Eyfirðingum til sjávar og sveita auk bæjarbúanna.

Karlakór Siglufjarðar kemst nú í fyrsta sinn á malbiki alla leið í bæinn til að vera með okkur á mótinu. Stjórnandi þeirra er Guðrún Ingimundardóttir. Karlakór Eyjafjarðar tengist Eyjafjarðarsveit og Pál Barna Szabó er stjórnandi kórsins þetta árið. Valmar Väljaots stjórnar KAG eins og undanfarin fimm ár.

Á þessu móti verður hver kór með sitt prógram og verður spennandi að heyra hvað verður í boði. Í lokin syngja allir kórarnir saman nokkur stórvirki úr sönghefð íslenskra karlakóra.

Tónleikarnir hefjast klukkan 16:00 og aðgangseyrir er kr. 2.000,-