1. des. Hátíð í Lóni

Jónas í góðra vina hóp
Jónas í góðra vina hóp
 Þann fyrsta des býður KAG félögum sínum til veislu í Lóni. Makar koma að sjálfsögðu líka svo og fyrrum félagar og þeirra makar. Byrjað er á að fara upp á Hlíð og halda létta tónleika þar fyrir íbúana áður en mætt er í Lón. Þar er náttúrlega á borðum hangikjöt með "tilbehör" og nóg af því...  Klukkan sex voru flestir komnir upp í Hlíð og klárir í að syngja sitt sætasta fyrir eldri borgarana. Byrjað var svona kortér yfir og "Gráa merin" reið á vaðið. Síðan komu nokkur jólalög útsett fyrir karlakór. Eftir það var skipt um gír og sungin lög eins og "Adam átti syni sjö" og "Nú er hún Gunna á nýju skónum". Þarna gátu tónleikagestir sungið með og drógu ekki af sér. Klukkan að verða sjö kvöddum við með kurt og pí og drifum okkur í Lónið. Þar voru stelpurnar okkar, þær Stebba, Stína og Jenný, búnar að dunda sér við undirbúning veislunnar. Stórglæsilegt veisluborðið beið tilbúið, ljósin dauf, lítil kerti á hverju borði og sannkallaður jólailmur í loftinu.

 Veisluna setti formaður um hálf átta, bauð alla velkomna og sérstaklega séra Svavar Alfreð, en prestur er alltaf með okkur þetta kvöld. Mættir voru tæplega hundrað manns. Fljótlega var tekið til við kjötið frá Kjarnafæði, kartöflurnar frá Kela í Höfða, jafninginn frá Bautanum, laufabrauðið úr Brúarbakaríinu, grænu baunirnar og rauðkálið. á eftir var boðið upp á kaffi og Lindu-konfekt. Menn voru farnir að draga á eftir sér ýstruna, svei mér þá. Valmar og Snorri léku undir fjöldasöng milli liða og tóku gestir að sjálfsögðu hressilega undir.

 Svavar Alfreð hafði ætlað sér að vera með einhverja sérstaka uppákomu sem tengdist kertum, en við borðið hans mynduðust fljótt umræður um "gluggann í Akureyrarkirkju", þ.e.a.s. þennan frá Coventry. Hann ákvað að segja okkur bara söguna af rúðunni og var það afar áhugavert. Það er aldrei að vita hverju þeir taka uppá prestarnir, þegar þeir koma til okkar á þessu kvöldi.

 Þegar líða tók á kvöldið kom að föstum lið. Það voru þeir Alli Páls og Snorri, sem stóðu fyrir bögglauppboði saman og fóru svolítið nýja leið að þessu sinni. Völdu þeir sér tvo fulltrúa hvor og voru þeir látnir "bjóða upp pakka" sem þeir höfðu valið sér. Var það ansi gaman og hressilegt á stundum. Að síðustu buðu Alli og Snorri upp hvor sinn pakkann og skilaði þetta uppátæki heilmiklum auðæfum. 

 Þá voru kallaðir upp raddformenn allir: Svenni, Gósi, Tommi og Smári. Þegar þeir voru komnir, fannst okkur vanta einn til viðbótar og fannst Haraldur Höskuldsson húsvörður passa vel inn í þennan föngulega hóp. Þeir fengu allir væna rauðvínsflösku til að nota með jólasteikinni og þakkir fyrir sín störf það sem af er vetri.

 Menn sátu svo að vild og spjölluðu saman fram eftir kvöldi en allt var búið fyrir ellefu. Enn eitt gott jólakvöld KAG að baki. Allir fóru heim saddir og sælir.